Erlent

Bandaríkin eiga hátt í fjögur þúsund kjarnavopn

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríkin eru eina ríki heims sem hefur beitt kjarnaorkusprengjum í hernaði. Kjarnavopnum þeirra hefur fækkað mikið undanfarna áratugi.
Bandaríkin eru eina ríki heims sem hefur beitt kjarnaorkusprengjum í hernaði. Kjarnavopnum þeirra hefur fækkað mikið undanfarna áratugi. Vísir/Getty

Hátt í fjögur þúsund kjarnavopn eru í vopnabúri Bandaríkjanna. Þeim hefur fækkað lítillega síðustu ár en þetta er í fyrsta skipti sem Bandaríkjastjórn hefur birt opinberar tölur um fjöldann frá því árið 2018.

Ríkisstjórn Donalds Trump, fyrrverandi forseta, ákvað að halda leynd yfir kjarnorkuvopnabúi sínu eftir mars árið 2018. Þá sagði hún að 3.822 kjarnavopn hefðu verið í eigu Bandaríkjanna í september árið 2017.

Utanríkisráðuneytið boðaði gegnsæi þegar það birti fyrstu tölurnar um fjölda kjarnavopna í meira en þrjú ár í dag. Það telur það hjálpa baráttunni gegn útbreiðslu kjarnavopna að birta tölurnar opinberlega.

Í september í fyrra áttu Bandaríkin 3.750 kjarnavopn, ýmist tilbúin til notkunar eða í langtímageymslu, að sögn AP-fréttastofunnar. Þau voru 3.805 árið áður og 3.875 í september 2018.

Kjarnavopnum Bandaríkjanna hefur fækkað mikið undanfarna áratugi. Þau voru fleiri en tíu þúsund árið 2003 en þau voru flest 31.255 árið 1967.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á ráðstefnu um afkjarnavopnun í febrúar að Bandaríkin hefðu siðferðislega skyldu og þjóðaröryggislega nauðsyn til þess að fækka og útrýma á endanum ógninni af gereyðingarvopnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×