Fótbolti

Vinnubrögð KSÍ höfðu áhrif á ákvörðun Jóhanns

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson bar fyrirliðabandið í síðasta landsleikjaglugga en verður ekki með gegn Armeníu á föstudag og Liechtenstein næsta mánudag.
Jóhann Berg Guðmundsson bar fyrirliðabandið í síðasta landsleikjaglugga en verður ekki með gegn Armeníu á föstudag og Liechtenstein næsta mánudag. vísir/Hulda Margrét

Jóhann Berg Guðmundsson verður ekki með fótboltalandsliðinu sem mætir Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM á næstunni. Hann segir vinnubrögð KSÍ hafa haft sitt að segja um þá ákvörðun sína að draga sig úr hópnum.

Jóhann var í 25 manna hópi sem Arnar Þór Viðarsson valdi í síðustu viku og átti að koma saman í Reykjavík í dag. Hann kom inn á sem varamaður og lék í 30 mínútur gegn Norwich í ensku úrvalsdeildinni um helgina, og hefur spilað alla sjö deildarleiki Burnley á tímabilinu til þessa.

Í tilkynningu KSÍ í gær sagði að Jóhann og Jón Guðni Fjóluson hefðu dregið sig úr landsliðshópnum vegna meiðsla. Í viðtali við 433.is í dag kvaðst Jóhann vissulega vera „tæpur í náranum“ og því hafa ákveðið að draga sig úr landsliðshópnum.

Fleira spilar þó inn í en Jóhann hefur í gegnum tíðina oft mætt í landsliðsverkefni þrátt fyrir að vera tæpur eða glíma hreinlega við meiðsli.

„Ég get alveg viðurkennt að það hafði áhrif á ákvörðun mína í þetta sinn að ég hef ekki verið fyllilega sáttur við vinnubrögð sambandsins undafarin misseri,“ sagði Jóhann við 433.is.

Fyrrverandi stjórn KSÍ ákvað í síðasta landsleikjaglugga að taka Kolbein Sigþórsson út úr landsliðshópnum eftir ásakanir í hans garð um kynferðisbrot.

Arnar landsliðsþjálfari sagðist svo á blaðamannafundi í síðustu viku hafa ákveðið að velja ekki Aron Einar Gunnarsson í landsliðshópinn vegna „utanaðkomandi ástæðna“. Síðar kom í ljós að Aron væri annar tveggja manna sem ásakaðir hefðu verið um nauðgun í landsliðsferð í Danmörku árið 2010.

Jóhann Berg á að baki 81 A-landsleik og hefur skorað í þeim átta mörk. Hann bar fyrirliðabandið í fjarveru Arons í leikjunum við Rúmeníu og Þýskaland í byrjun september, í síðasta landsleikjaglugga.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.