Enski boltinn

Farið að hitna undir Sol­skjær | Gagn­rýndur fyrir glott undir lok leiks gegn E­ver­ton

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Man United hefur aðeins unnið fimm af fyrstu 10 leikjum sínum á tímabilinu.
Man United hefur aðeins unnið fimm af fyrstu 10 leikjum sínum á tímabilinu. Gareth Copley/Getty Images)

Það virðist sem sæti Ole Gunnar Solskjær, þjálfara Manchester United, sé farið að hitna. Liðið missteig sig enn á ný er vængbrotið lið Everton mætti á Old Trafford en leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli.

Man United mistókst enn á ný að næla í sigur er Everton mætti án Dominic Calvert-Lewin, Richarlison, Andre Gomes og Seamus Coleman á Old Trafford. Lauk leiknum með 1-1 jafntefli eftir að heimamenn komust yfir en tókst hvorki að skora annað né að halda marki sínu hreinu.

Þetta eru ekki fyrstu stigin sem Man Utd tapar á heimavelli undanfarið en alls hefur liðið tapað 35 stigum í síðustu 25 leikjum sínum á Old Trafford.

Lærisveinar Solskjær hafa aðeins unnið tvo af síðustu sex leikjum sínum í öllum keppnum. Alls hefur liðið leikið tíu leiki á leiktíðinni, aðeins fimm hafa unnist meðan tveir hafa endað með jafntefli og þrír hafa tapast. 

Þá er ekki eins og liðið sé að tapa fyrir stærstu eða bestu liðum Evrópu. Töpin hafa komið gegn Young Boys frá Sviss, West Ham United og Aston Villa. Jafnteflin eru svo gegn Southampton og Everton.

Eftir það sem hefði átt að vera nokkuð þægileg byrjun á tímablinu er Solskjær  með bakið upp við vegg þegar október rennur í garð. Næstu vikur verða nokkuð strembnar þar sem Man Utd mætir Leicester City, Liverpool, Tottenham Hotspur, Manchester City, Chelsea og Arsenal í sex af næstu sjö leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. 

Atalanta og Villareal bíða svo í Meistaradeild Evrópu. 

Ekki nóg með að Man United hafi aðeins verið að næla í stig gegn Everton - sem er þó stigi meira en liðið gerði gegn Aston Villa á heimavelli - heldur virtist Solskjær vera skemmta sér konunglega á hliðarlínunni er skammt var til leiksloka.

Eftir leik mætti Solskjær í viðtal þar sem hann sagði að gestirnir hefðu varla skapað sér færi og sínir menn hefðu stjórnað leiknum frá A til Ö. Þrátt fyrir það skoraði Everton mark sem var dæmt af þar sem Yerri Mina var einu bringuhári fyrir innan og rangstaða því dæmd. 

Þá áttu Everton alls tíu skot innan úr vítateig heimamanna svo það má deila um hversu rosaleg tök lærisveinar Solskjær höfðu á leiknum. 

Norðmaðurinn þarf að snúa genginu við og það hratt því ef illa fer í næstu leikjum gæti liðið verið úr leik í titilbaráttunni á Englandi sem og úr leik í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×