Erlent

Her­menn fengnir til að flytja elds­neyti

Samúel Karl Ólason skrifar
Ráðamenn segja nóg til af eldsneyti en hægt gangi að flytja það á bensínstöðvar.
Ráðamenn segja nóg til af eldsneyti en hægt gangi að flytja það á bensínstöðvar. EPA/NEIL HALL

Ríkisstjórn Bretlands kallaði í dag út herlið til að tryggja dreifingu eldsneytis um landið. Bensíndælur víðsvegar um Bretland hafa verið tómar síðustu daga og langar raðir hafa myndast við dælurnar.

Ástandið hefur skánað eitthvað í dreifðari byggðum Bretlands í dag en versnað í suðausturhluta landsins og í London. Bundnar eru vonir við það að herinn geti bætt ástandið frekar.

Ráðamenn í Bretlandi segja nægt eldsneyti til í eldsneytisvinnslum og birgðastöðvum landsins. Skortur hafi hins vegar verið á ökumönnum til að flytja eldsneytið á bensínstöðvar. Ofan á það hafi eftirspurn eftir eldsneyti hækkað mjög.

Þess vegna hafa nærri því tvö hundruð hermenn verið sendir í ökuþjálfun, sem mun fara fram um helgina. Strax á mánudaginn eiga hermennirnir að byrja að keyra olíuflutningabíla hersins um landið. Síðan stendur til að fjölga hermönnum í akstri í næstu viku.

Til viðbótar við hermennina ætlar ríkisstjórnin að flytja til landsins allt að þrjú hundruð bílstjóra sem eiga að vinna við dreifingu næstu mánuði.

Það er þó bara fyrir dreifingu eldsneytis. Einnig er unnið að því að flytja til landsins þúsundir bílstjóra til að keyra aðrar vörur og mat í verslanir í Bretlandi á næstu mánuðum.

Skortur er sagður hafa verið á bílstjórum í Bretlandi um nokkuð skeið. Skorturinn mun þó hafa versnað að undanförnu, meðal annars vegna úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu, kórónuveirunnar og lágra launa.

Eltu steypubíl

Til marks um ástandið í Bretlandi sagði BBC frá því í gærkvöldi að um tuttugu ökumenn hefðu séð bíl sem þeir töldu vera olíuflutningabíl á götum Bilston og elt hann. Ökumennirnir eltu bílinn um nokkuð skeið og að byggingasvæði í Northamptonshire.

Þar komust þeir þó að því að þeir höfðu eytt eldsneyti þeirra í að elta steypubíl.

Í samtali við BBC segir Johnny Anderson, bílstjóri steypubílsins að hann hafi stoppað þegar ökumennirnir sem voru að elta hann byrjuðu að flauta. Þá hefði hann haldið að eitthvað hefði fallið af bíl sínum. Það var ekki fyrr en hann steig út úr bílnum sem hann sá hve margir væru að elta sig.

Fremsti maðurinn kallaði þá á Anderson og spurði á hvaða bensínstöð hann væri að fara. Anderson segist hafa svarað honum á þá leið að hann væri ekki á leið á bensínstöð og þurft að útskýra fyrir manninum að hann væri á steypubíl.

Við það hafi ökumaðurinn orðið reiður og skammað Anderson fyrir að hafa ekki stöðvað og sagt þeim sem voru að elta hann að hann væri ekki á olíuflutningabíl.


Tengdar fréttir

Óttast að þurfa að farga svínum í massavís í Bretlandi

Breskir svínabændur óttast að þurfa að farga þurfi stórum hluta svína Bretlands vegna landlægs skorts á slátrurum. Svínabú eru að fyllast víða um land og sláturhús skortir starfsmenn til að hafa undan sendingum frá búunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×