Umfjöllun og viðtöl: ÍA - Keflavík 2-0 | Skagamenn tryggðu sér farseðil í úrslit Mjólkurbikarsins

Sverrir Mar Smárason skrifar
Gísli Laxdal
Gísli Laxdal Vísir/Bára

Skagamenn fengu Keflavík í heimsókn í undanúrslitum Mjólkurbikars karla á Akranesi í dag. Keflavík léku síðast í úrslitaleik bikarsins árið 2014 en Skagamenn hafa ekki komist þangað síðan þeim unnu bikarinn árið 2003.

Skagamenn fóru vel af stað og skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 10.mínútu. Ísak Snær Þorvaldsson fékk þá boltann við miðju og átti góðan sprett í átt að marki Keflvíkinga. Ísak lagði svo boltann á Gísla Laxdal Unnarsson sem lagði hann fyrir sig, skoraði með góðu skoti á nærstöng og kom Skagamönnum yfir.

Stuðningsfólk ÍA fyllti völlinn í dag. Ef myndin er skoðuð vandlega má sjá leikmenn sem léku með ÍA en leika nú með öðrum liðum í Pepsi Max deildinni.Vísir/Daníel Þór

ÍA liðið tók fótinn ekki af bensíngjöfinni eftir markið heldur gáfu frekar í. Eftir nokkur ágætis færi var aftur komið að Gísla Laxdal. Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflavíkur, spyrnti þá boltanum fram úr markspyrnu, Steinar Þorsteinsson vann skallabolta á miðjunni og skallaði boltann inn fyrir vörn Keflavíkur. Gísli Laxdal var fljótastur að átta sig, stakk sér í gegn og komst einn gegn Sindra Kristni. Gísli skaut í gegnum klof Sindra Kristins og Skagamenn komnir tveimur mörkum yfir.

Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var nánast eitt lið á vellinum. Marley Blair og Ingimundur Aron, leikmenn Keflavíkur, áttu sitthvort skotið sem Árni Marinó í marki Skagamanna þurfti að verja. Skagamenn herjuðu að marki Keflavíkur en tókst ekki að skora annað mark og hálfleikstölur því 2-0.

Úr leik dagsins.Vísir/Daníel

Síðari hálfleikur var ansi rólegur heilt yfir og lítið marktækt sem gerðist. Ekki var mikið um opin marktækifæri en þó reyndu bæði lið að koma inn marki. Það fór aðeins að hitna í leikmönnum Keflavíkur þegar leið á síðari hálfleikinn. 

Davíð Snær Jóhannsson þar fremstur í flokki en hann fékk tvö gul spjöld fyrir brot sem hann hefði kannski getað sleppt. Það síðara fékk hann á 71.mínútu og Keflavíkurliðið því manni færri síðustu tuttugu mínúturnar. Keflavík setti pressu á vörn ÍA undir lok leiks en tóks ekki að skora. Skagamenn unnu leikinn 2-0 og spila því í úrslitaleik Mjólkurbikarsins þann 16.október í fyrsta sinn síðan þeir unnu bikarinn árið 2003.

Skagamenn undirbúa fagnaðarlætin að leik loknum.Vísir/Daníel

Af hverju vann ÍA?

Skagamenn mættu grimmari og tilbúnari út í þennan leik frá upphafi. Þeir voru beittir í sínum sóknum og Gísli Laxdal skoraði tvö góð mörk. Varnarleikur ÍA var upp á tíu í dag sömuleiðis.

Hverjir stóðu upp úr?

Gísli Laxdal var frábær í leiknum í dag og skoraði bæði mörkin. Auk hans voru flestir í ÍA liðinu á sínum besta degi. Óttar Bjarni og Alex Davey í hjarta varnarinnar lokuðu alveg á Joey Gibbs sem hefur reynst mörgum liðum erfiður í sumar.

Hvað hefði mátt betur fara?

Keflvíkingar voru undir í baráttunni frá upphafi og virtust verr stemmdir en Skagamenn. Þeim gekk erfiðlega að skapa sér góð tækifæri til þess að skora en það var líklega mest til komið vegna góðs varnarleiks Skagamanna.

Hvað gerist næst?

Keflvíkingar hafa lokið leik í sumar og fara sennilega bara að skipuleggja lokahóf.

Skagamenn mæta sigurvegara úr leik Vestra og Víkings í úrslitunum á Laugardalsvelli þann 16.október.


Mjólkurbikarinn er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Mjólkurbikarinn er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.