Allt jafnt í stór­leiknum á Anfi­eld

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Forvitnilegur varnarleikur hjá gestunum frá Manchester-borg.
Forvitnilegur varnarleikur hjá gestunum frá Manchester-borg. Michael Regan/Getty Images

Liverpool og Englandsmeistarar Manchester City gerðu 2-2 jafntefli í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Það var hart barist í leik dagsins en engin mörk voru skoruð í fyrri hálfleik. Rúben Dias og James Milner nældu sér hins vegar í gult spjald og hefði sá síðarnefndi ef til vill átt að fá annað í síðari hálfleik, það var hins vegar þá sem flóðgáttirnar opnuðust.

Sadio Mané kom heimamönnum yfir eftir tæplega klukkutíma eftir sendingu Mohamed Salah. Sléttum tíu mínútum síðar jafnaði Phil Foden með frábæru skoti úr þröngri stöðu eftir sendingu Gabriel Jesus.

Staðan var ekki jöfn lengi en Mo Salah kom heimamönnum í 2-1 með þrumuskoti úr einkar þröngu færi hægra megin í vítateig Man City eftir frábæran sprett þar sem hann fór framhjá varnarmönnum City eins og að drekka vatn.

Aðeins fimm mínútum síðar þrumaði Kevin De Bruyne að marki og endaði boltinn í netinu eftir að hafa haft viðkomu í varnarmanni.

Staðan því 2-2 þegar tæpar tíu mínútur lifðu leiks og andrúmsloftið á Anfield rafmagnað. Fleiri urðu mörk dagsins hins vegar ekki og lauk leiknum með 2-2 jafntefli. 

Það þýðir að Chelsea heldur toppsæti deildarinnar með 16 stig, þar á eftir kemur Liverpool með 15 og Man City með 14 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira