Enski boltinn

Hleyptu Leicester City manninum ekki inn í landið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kelechi Iheanacho fer ekki fyrir liði Leicester City í Póllandi. Hann þurfti að snúa aftur heim og missir af leiknum.
Kelechi Iheanacho fer ekki fyrir liði Leicester City í Póllandi. Hann þurfti að snúa aftur heim og missir af leiknum. EPA-EFE/Andy Rain

Kelechi Iheanacho missir af Evrópudeildarleik Leicester City í dag eftir að hafa verið stöðvaður af landamæravörðum við komuna til Póllands.

Leicester City liðið flaug til Varsjár í Póllandi þar sem liðið er að fara að spila við Legia Varsjá.

Iheanacho fékk ekki inngöngu í landið vegna einhverja vandamála með vegabréfsáritun hans og var því sendur aftur til baka til Bretlands.

Iheanacho er nígerískur landsliðsmaður sem hefur spilað í Englandi frá því að hann kom í akademíu Manchester City í ársbyrjun 2015.

Knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers staðfesti þetta og sagðist vonsvikinn að geta ekki notað framherjann í leik kvöldsins.

„Það var eitthvað vandamál hjá Kelechi og vegabréfsáritun hans dugði ekki. Pappírarnir hleyptu honum ekki inn í landið sem er óheppilegt. Við þurfum að skoða það betur þegar við komum til baka,“ sagði Brendan Rodgers.

„Því miður verður hann ekki með okkur í þessum leik sem er synd því ég hefði látið hann spila,“ sagði Rodgers.

Leicester gerði 2-2 jafntefli við Napoli í fyrsta leik sínum í Evrópudeildinni í vetur og er því á eftir sínum fyrsta sigri. Legia vann á sama tíma 1-0 sigur á Spartak Moskvu en hefur aftur á móti tapað fjórum af fyrstu sjö deildarleikjunum heima fyrir.

Kelechi Iheanacho á enn eftir að skora í sex deildarleikjum og einum Evrópudeildarleik á þessu tímabili. Hann hefur komið inn á sem varamaður í öllum deildarleikjunum en byrjaði leikinn á móti Napoli og lagði upp annað mark Leicester í honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×