Fótbolti

Klopp hefur engar áhyggjur af vörn Liverpool gegn Porto

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp segist ekki hafa áhyggjur af varnarleik Liverpool þrátt fyrir það að liðið hafi fengið þrjú mörk á sig gegn nýliðum Brentford um helgina.
Jürgen Klopp segist ekki hafa áhyggjur af varnarleik Liverpool þrátt fyrir það að liðið hafi fengið þrjú mörk á sig gegn nýliðum Brentford um helgina. Shaun Botterill/Getty Images

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist ekki hafa neinar áhyggjur af varnarleik liðsins þrátt fyrir að hafa fengið á sig þrjú mörk gegn nýliðum Brentford um liðna helgi.

Liverpool gerði 3-3 jafntefli á laugardaginn þegar að liðið mætti Brentford í ensku úrvalsdeildinni um helgina, en það var í fyrsta skipti sem Liverpool fær á sig þrjú mörk í einum og sama leiknum síðan liðið tapaði gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í apríl.

„Þetta var ekki okkar besti leikur varnarlega og við verðum að bæta það,“ sagði Klopp. „Við gerum ekki of mikið úr þessum hlutum, en við verðum samt sem áður að bregðast við.“

Liverpool vann góðan 3-2 sigur gegn AC Milan í fyrsta leik riðlakeppni Meistaradeildarinnar eftir að hafa lent 2-1 undir. Fyrir leikinn gegn Brentford hafði liðið aðeins fengið á sig eitt mark í fyrstu fimm umferðum ensku úrvalsdeildarinnar.

Klopp mætir með lærisveina sína til Portúgal á morgun þar sem að liðið mætir Porto. Hann segist ekki hafa neinar áhyggjur hvað varðar varnarleikinn á morgun.

„Við þurfum ekki að hafa áhyggjur á þessum tímapunkti, en við erum búnir að ræða þetta og vitum að þetta gengur ekki. Við erum búnir að leysa þetta og þurfum að sýna það á morgun.“

„En þetta er erfiður riðill og við megum ekki við því að eyða tíma,“ sagði Klopp að lokum.

Seinast þegar að þessi tvö lið mættust var það í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu tímabilið 2018-2019, en þá fór Liverpool örugglega áfram eftir samanlagðan 6-1 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×