Innlent

At­kvæði verða talin aftur í Suður­kjör­dæmi

Atli Ísleifsson skrifar
Þórir Haraldsson formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi.
Þórir Haraldsson formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi. Vísir/Vilhelm

Ráðist verður í endurtalningu atkvæða í Suðurkjördæmi eftir að fjórir stjórnmálaflokkar fóru fram á slíkt. Þetta staðfestir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi.

Afar mjótt var á munum í kjördæminu þar sem einungis munaði sjö at­kvæðum á lista Vinstri grænna, sem náðu ekki inn manni, og Mið­flokksins sem fékk síðasta kjör­dæma­kjörna þing­mann kjördæmisins.

Yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi kom saman til fundar um klukkan 13:30. Um klukkan 14 sendi Þórir Haraldsson formaður frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að ráðist yrði í endurtalningu atkvæða í kosningum til Alþingis á laugardag.

„Talning fer fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi í dag, 27. september, 2021, og hefst kl. 19. Umboðsmenn framboðslista verða boðaðir til fundar með yfirkjörstjórn á sama stað kl. 18:30. Talning verður fyrir opnum tjöldum í samræmi við lög,“ segir í tilkynningunni.

Greint var frá því í morgun að umboðsmenn Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokksins hefðu tekið undir kröfu Vinstri grænna um endurtalningu – kröfu sem Píratar tóku undir í gær.

Framkvæmdin í Norðvesturkjördæmi kærð

Endur­talning á atkvæðum fór fram í Norð­vestur­kjör­dæmi síðdegis í gær þar sem nokkur at­kvæði hliðruðust til milli nokkurra flokka, sem varð til þess að jöfnunar­sæti í öllum kjör­dæmum nema einu fóru á flakk.

Fyrr í dag var sagt frá því að Karl Gauti Hjaltason, fráfarandi þingmaður Miðflokksins, og Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, hafi ætlað sér að kæra framkvæmd kosninganna. Karl Gauti sagðist í samtali við fréttastofu ætla að kæra til lögreglu en Magnús Davíð til kjörbréfanefndar.


Tengdar fréttir

Telur eðlilegt að telja aftur í öllum kjördæmum

Oddviti Vinstri grænna í Suðurkjördæmi segir slæmt að upplifa að traust á talningu atkvæða hafi rofnað. Hún ásamt fulltrúum þriggja annarra flokka hafa farið fram á endurtalningu atkvæða í kjördæminu.

Vill skýrslu frá öllum yfirkjörstjórnum um kosningarnar

Kristín Edwald, formaður Landskjörstjórnar, segir að óskað hafi verið eftir skýrslum frá yfirkjörstjórnum í öllum kjördæmum um framkvæmd kosninga. Beiðni liggi fyrir um endurtalningu í Suðurkjördæmi en annars sé mat á endurtalningu í höndum yfirkjörstjórna í hverju kjördæmi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×