Enski boltinn

Stjóri mánaðarins fyrir þremur vikum en er nú þriðji líklegastur til að verða rekinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjóratíð Nunos Espirito Santo hjá Tottenham byrjaði frábærlega en það hefur fjarað undan gengi liðsins að undanförnu.
Stjóratíð Nunos Espirito Santo hjá Tottenham byrjaði frábærlega en það hefur fjarað undan gengi liðsins að undanförnu. getty/Nick Potts

Allt hefur gengið á afturfótunum hjá Tottenham eftir að Nuno Espirito Santo var valinn knattspyrnustjóri ágúst-mánaðar í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham tapaði fyrir Arsenal, 3-1, í Norður-Lundúnaslag í gær. Þetta var þriðja tap Spurs í röð og þriðji deildarleikurinn í röð þar sem liðið fær á sig þrjú mörk.

Tottenham vann fyrstu þrjá deildarleiki sína á tímabilinu, alla 1-0, og Nuno var valinn stjóri mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni. Spurs var á toppi deildarinnar þegar fyrsta landsleikjahlé tímabilsins gekk í garð.

Síðan verðlaunin fyrir stjóra mánaðarins voru veitt, 10. september, hefur Spurs tapað öllum þremur deildarleikjum sínum með markatölunni 1-9.

Hitnað hefur undir Nuno og samkvæmt veðbönkum er hann þriðji líklegasti stjórinn til að verða rekinn. Aðeins Steve Bruce hjá Newcastle United og Daniel Farke hjá Norwich City eru framar í röðinni að mati veðbanka.

Eftir leikinn á Emirates viðurkenndi Nuno að hann hefði tekið rangar ákvarðanir varðandi liðsval.

„Ég tók rangar ákvarðanir en fer ekki nánar út í það. Ég segi það bara við leikmennina. Þegar þú ert með leikáætlun verðurðu að taka réttar ákvarðanir varðandi það hvaða leikmenn þú setur inn á völlinn til að framkvæma það. En ákvarðirnar voru ekki réttar,“ sagði Nuno.

Næsti leikur Tottenham er gegn Mura í Sambandsdeild Evrópu á fimmtudaginn. Á sunnudaginn fær Tottenham svo Norwich í heimsókn í 6. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.


Tengdar fréttir

„Besti dagur lífs míns“

Emile Smith Rowe var kátur eftir 3-1 sigur Arsenal á nágrönnum sínum í Tottenham í Norður-London slagnum í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.