Enski boltinn

Klopp segir að Brentford séu bestu nýliðar deildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósaði Brentford eftir að liðin skildu jöfn í dag.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósaði Brentford eftir að liðin skildu jöfn í dag. EPA-EFE/PETER POWEL

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var eðlilega svekktur með 3-3 jafntefli sinna manna gegn nýliðum Brentford í ensku úrvalsdeildinni í dag. Hann segir að sínir menn hafi getað skorað allt að sex mörk í í dag, og að Brentford sé sterkasta liðið af þeim þrem sem kom upp úr B-deildinni fyrir tímabilið.

„Við gerðum okkar. Við spiluðum mjög góðan fótbolta og sköpuðum frábær færi,“ sagði Klopp eftir leikinn.

„Við skoruðum þrjú, en hefðum getað skorað fjögur, fimm eða sex. En þeir áttu skilið sín þrjú mörk og hefðu getað skorað fjögur. Þeir gerðu mjög vel og þess vegna áttu þeir þessi úrslit skilin.“

„Andrúmsloftið var magnað og þeir börðust eins og ljón. Við börðumst líka, en við verðum að vera tilbúnir í alvöru baráttu. Við vorum það, en við töpuðum of mörgum skallabaráttum og það hægði á okkar leik.“

Klopp hrósaði síðan sínum mönnum og sagði að liðsheildin og spilamennska liðsins hafi verið mjög góð.

„Að sjá hvernig strákarnir spiluðu saman í dag, mér líkaði það. Við spiluðum góðan leik og strákunum finnst ekki eins og við þurfum að hafa yfirburði í öllum stöðum. Við börðumst vel og við þurftum að gera það. Þegar við vorum með boltann var ég mjög ánægður með frammistöðuna. Þegar boltinn var í loftinu, ekki jafn mikið.“

Klopp var síðan spurður að því hvort honum þætti Brentford bestu nýliðar deildarinnar.

„Já, og af nokkrum mismunandi ástæðum. Þeir eru virkilega góðir. Markvörðurinn hefði getað spilað í treyju númer tíu. Hann átti nokkrar frábærar sendingar, en það var það rétta í stöðunni á móti okkur,“ sagði Klopp að lokum.


Tengdar fréttir

Nýliðarnir tóku stig gegn Liverpool í sex marka leik

Brentford tók á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag í leik sem bauð upp á sex mörk. Lokatölur 3-3, og nýliðarnir hafa því enn aðeins tapað einum leik í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×