Erlent

Talibanar hengdu upp lík mannræningja til sýnis

Kjartan Kjartansson skrifar
Vopnaðir talibanar í Herat. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Vopnaðir talibanar í Herat. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/EPA

Yfirvöld talibana í borginni Herat í vestanverðu Afganistan drápu fjóra meinta mannræningja og hengdu lík þeirra upp öðrum til varnaðar í opinberu rými. Fórnarlömb mannránsins eru sögð hafa sloppið ómeidd.

Reuters-fréttastofan hefur eftir talibönum í Herat að meintu mannræningjarnir hafi rænt fjársýslumanni og syni hans og ætlað sér að flytja þá frá borginni. Verðir á eftirlitsstöðvum urðu varir við ræningjana. Allir fjóri féllu í skotbardaga við verðina en einn hermaður talibana særðist.

„Lík þeirra voru flutt inn á aðaltorgið og hengd upp í borginni öðrum mannræningjum til varnaðar,“ segir Sher Ahmad Ammar, vararíkisstjóri Herat.

Vitni í borginni segist hafa séð liðsmenn talibana koma með lík mannanna á pallbíl. Líkin voru svo hífð upp með krana og látin hanga þar. Myndir af líkunum á samfélagsmiðlum sýndu skilaboð sem höfðu verið hengd upp á brjóstkassa eins mannanna: „Þetta er refsingin við mannránum“.

Talibanar tóku völdin í Afganistan í ágúst í aðdraganda brotthvarfs erlendra hersveita þaðan. Þeir sögðust ætla að taka aftur upp harðar líkamlegar refsingar sem einkenndu fyrri valdatíð þeirra í kringum aldamót. Þeirra á meðal eru aftökur og aflimanir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.