Fótbolti

Ítölsku meistararnir enn taplausir

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Matteo Darmian fagnar marki sínu í kvöld með liðsfélögum sínum.
Matteo Darmian fagnar marki sínu í kvöld með liðsfélögum sínum. Gabriele Maltinti/Getty Images

Ítölsku meistararnir í Inter unnu 3-1 útisigur gegn Fiorentina í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Heimamenn í Fiorentina leiddu í hálfleik, en góður seinni hálfleikur skilaði meisturunum sigri.

Riccardo Sottil kom Fiorentina í 1-0 á 23. mínútu eftir stoðsenfingu frá Nicolas Gonzalez og þannig var staðan í hálfleik.

Matteo Darmian jafnaði metin snemma í seinni hálfleik áður en að Edin Dzeko kom gestunum yfir á 55. mínútu.

Nicolas Gonzalez nældi sér í gult spjald fyrir mótmæli á 78. mínútu, en það stöðvaði hann ekki í halda tuðinu áfram. Dómari leiksins lét ekki bjóða sér það og lyfti spjaldinu öðru sinni, og rauða spjaldið fylgdi viðstöðulaust á eftir.

Inter nýtti sér liðsmuninn og á 87. mínútu innsyglaði Ivan Perisic 3-1 sigur gestanna eftir stoðsendingu frá Roberto Gagliardini.

Inter er nú á toppi ítölsku deildarinnar með 13 stig eftir fimm leiki. Liðið hefur unnið fjóra og gert eitt jafntefli, en Napoli eru með fullt hú stiga og eiga leik til góða.

Fiorentina situr í sjötta sæti með níu stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.