Innlent

Varar fólk við að reyna að smitast af veirunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir mikla áhættu felast í því að reyna að smitast viljandi af kórónuveirunni.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir mikla áhættu felast í því að reyna að smitast viljandi af kórónuveirunni. Vísir/Vilhelm

Ómögulegt er að segja til um hver veikist alvarlega af þeim sem smitast af kórónuveirunni. Því varar Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, fólk endregið við því að reyna vísvitandi að smitast.

Í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun var Þórólfur spurður út í sögusagnir um að fólki færi nú vísvitandi inn á heimili þar sem Covid-smit hafi komið upp gagngert til þess að smitast sjálft í þeirri von að klára veiruna og mögulega að ná betra ónæmi fyrir önnur afbrigði hennar.

Varaði sóttvarnalæknir fólk við því að reyna þetta þar sem enginn vissi fyrir fram hver lenti illa í veirunni. Nefndi hann sem dæmi að af þeim tveimur sem voru á öndunarvél á sjúkrahúsi fyrir helgi hafi annar verið á fertugsaldri og hinn eldri en ekki með undirliggjandi sjúkdóm. Annar þeirra hafi verið bólusettur en hinn ekki.

„Ef fólk ætlar að fara í þetta þá veit maður aldrei hver útkoman verður. Auk þess veit maður heldur ekki hvern maður smitar. Maður getur smitað ömmu og afa eða einhvern sem er veikari fyrir sem lendir illa í því og það er ekkert voða gaman,“ sagði Þórólfur.

Bretar engin fyrirmynd þrátt fyrir fulla knattspyrnuvelli

Þá var Þórólfur spurður að því hvort að sóttvarnareglur á Íslandi væru of strangar. Í Danmörku hafi verið slakað alveg á aðgerðum og í Bretlandi og Þýskalandi væru fullir knattspyrnuvellir með engri hólfaskiptingu.

Benti Þórólfur á að í Bretlandi hafi verið dregið verulega úr sýnatöku. Á sama tíma og smituðum fækkaði væri mikil fjölgun í spítalainnlögnum og dauðsföllum af völdum Covid-19.

„Ég held að Bretar séu engin fyrirmynd í þessu,“ sagði sóttvarnalæknir.

Íslensk stjórnvöld hefðu nú þegar slakað á sínum takmörkunum og sagðist Þórólfur telja að þær sem enn eru í gildi væru ekki sérstaklega íþyngjandi. Ef slakað yrði enn frekar á aðgerðum væri hætta á að sagan frá því í sumar endurtæki sig með mikilli fjölgun smitaðra og sjúkrahúsinnlagna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.