Enski boltinn

Liver­pool að­eins tapað átta af fyrstu hundrað leikjum Van Dijk

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Van Dijk er svo sannarlega betri en enginn.
Van Dijk er svo sannarlega betri en enginn. EPA-EFE/ANDREW YATES

Hollenski miðvörðurinn Virgil van Dijk hefur heldur betur staðið fyrir sínu frá því hann gekk í raðir Liverpool frá Southampton. Í fyrstu 100 leikjum hans fyrir félagið hefur það aðeins tapað átta leikjum.

Liverpool vann nokkuð torsóttan – þótt ótrúlegt megi virðast – 3-0 sigur á Crystal Palace um helgina. Var þetta hundraðist leikur Virgil van Dijk fyrir félagið. Eftir að hafa misst af næstum öllu síðasta tímabili vegna meiðsla er hinn þrítugi Van Dijk snúinn aftur eins og ekkert hafi í skorist.

Liverpool keypti hollenska miðvörðinn í janúarglugganum í upphafi árs 2018 fyrir 75 milljónir punda. Van Dijk small eins og flís við rass í Liverpool-liði Jürgen Klopp sem hefur verið ógnarsterkt frá því.

Því til sönnunar er hægt að benda á þá staðreynd að liðið hefur aðeins tapað átta af þeim hundrað deildarleikjum sem Van Dijk hefur leikið í treyju Liverpool.

Töpin hafa dreifst nokkuð vel á veru Van Dijk í Liverpool-borg. Liðið tapaði fyrri Manchester United og Chelsea árið 2018. Árið 2019 beið liðið lægri hlut gegn Watford, Arsenal og Manchester City tvívegis. Í fyrra tapaði liðið svo óvænt 7-2 gegn Aston Villa.

Van Dijk hefur líkt og samherjar sínir farið vel af stað í ár. Liverpool er með 13 stig að loknum fimm leikjum og hefur aðeins fengið eitt mark á sig. Með hann fullfrískan innanborðs eru allir vegir færir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×