Erlent

Auð­kýfingurinn Robert Durst sak­felldur fyrir að myrða bestu vin­konu sína

Árni Sæberg skrifar
Durst var sakfelldur af kviðdómi í Los Angeles.
Durst var sakfelldur af kviðdómi í Los Angeles. Al Seib/AP

Robert Durst, sem er 78 ára gamall, var í dag sakfelldur fyrir að myrða Susan Berman árið 2000. Meðal sönnunargagna í málinu var atriði úr heimildarþætti um hann þar sem hann heyrðist segja „Þarna kom það. Þeir náðu þér.“

Susan Berman fannst látin á heimili sínu með skotsár á hnakka árið 2000. Hún hafði verið besta vinkona Dursts um árabil og hafði skömmu fyrir morðið játað fyrir vinum sínum að hún hefði skáldað fjarvistarsönnum fyrir Durst í tengslum við rannsókn á hvarfi konu hans, Kathie Durst, árið 1982.

Durst hefur allt frá hvarfi konu sinnar verið grunaður um að hafa komið henni fyrir kattarnef. Hann er einnig grunaður um að hafa myrt mann árið 2001 meðan hann faldi sig fyrir réttvísinni í Texas.

Durst var handtekinn í New Orleans árið 2015, kvöldið áður en lokaþáttur heimildaseríunnar The Jinx: The Life and Deaths of Robert Durst var sýndur. Í þættinum voru sett fram sönnunargögn um meintan áralangan brotaferil hans og náðist hann á upptöku með földum hljóðnema á baðherbergi muldra í hálfu hljóði „Þarna kom það. Þeir náðu þér.“

Brotaferill Durst er svo skrautlegur að árið 2010 var Hollywood-myndin All good Things framleidd um ævi hans. Ryan Gosling lék Robert Durst en Kirsten Dunst Kathie Durst. Hann sagði seinna að myndin væri að mestu sannsöguleg þó hún gefi sterklega í skyn að hann væri sekur um þrjú morð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.