Fótbolti

Þjálfarar liðanna í undanúrslitum léku allir með sama liði

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson, Jón Þór Hauksson, Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Arnar Gunnlaugsson eiga allir möguleika á að verða bikarmeistarar á Laugardalsvelli 16. október.
Jóhannes Karl Guðjónsson, Jón Þór Hauksson, Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Arnar Gunnlaugsson eiga allir möguleika á að verða bikarmeistarar á Laugardalsvelli 16. október. Samsett/Bára og Hulda Margrét

Ljóst er að ÍA, Keflavík, Vestri eða Víkingur R. verður bikarmeistari karla í fótbolta eftir mánuð. Þjálfarar liðanna fjögurra eiga að minnsta kosti eitt sameiginlegt.

Liðunum fjórum er öllum stýrt af fyrrverandi leikmönnum ÍA. Þremur þeirra er raunar stýrt af uppöldum og gegnheilum Skagamönnum því Jóhannes Karl Guðjónsson stýrir ÍA, Arnar Gunnlaugsson stýrir Víkingi og Jón Þór Hauksson stýrir Vestra.

Keflavík er með tvo aðalþjálfara, þá Sigurð Ragnar Eyjólfsson og Eystein Húna Hauksson. Eysteinn er frá Egilsstöðum og lék aldrei með ÍA en Sigurður Ragnar, sem er uppalinn KR-ingur, lék þrjú tímabil með ÍA og lauk raunar knattspyrnuferlinum á Akranesi árið 2005.

Arnar og Sigurður Ragnar eru fæddir árið 1973, Jón Þór árið 1978 og Jóhannes Karl er yngstur, fæddur árið 1980. Arnar náði ekki að spila með neinum hinna í meistaraflokki en Sigurður Ragnar og Jóhannes Karl léku saman í liði ÍA sumarið 1998, áður en sá síðarnefndi hóf langan atvinnumannsferil sinn.

Sigurður Ragnar og Jón Þór voru svo báðir í leikmannahópi ÍA ári síðar, árið 1999, en léku fáa leiki. Á þessum árum var Heimir Guðjónsson leikmaður ÍA en Jón Þór og hans menn í Vestra slógu Heimi og Valsmenn út úr bikarnum í gær með einum fræknasta sigri í sögu félagsins.

Undanúrslitin í Mjólkurbikarnum eru eftir hálfan mánuð. ÍA tekur á móti Keflavík laugardaginn 2. október og Vestri tekur á móti Víkingi degi síðar. Úrslitaleikurinn er svo á Laugardalsvelli 16. október.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.