Erlent

Sigurreifur Gahr Støre: „Við getum loksins sagt að okkur tókst það“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jonas Gahr Støre, formaður norska Verkamannaflokksins, var kátur í kvöld.
Jonas Gahr Støre, formaður norska Verkamannaflokksins, var kátur í kvöld. EPA-EFE/Javad Parsa

Jonas Gahr Støre, formaður norska Verkamannaflokksins, var sigurreifur er hann ávarpaði flokksmenn sína eftir að ljóst var að vinstri blokkin í norskum stjórnmálum hafði unnið sigur í norsku þingkosningunum í kvöld. Erna Solberg forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins hefur viðurkennt ósigur.

Fyrstu tölur gáfu sterklega til kynna að Verkamannaflokkurinn yrði stærsti flokkurinn á þingi og að sitjandi ríkisstjórn myndi falla. Nú er ljóst að átta ára tíð Ernu Solberg er á enda en norskir fjölmiðlar hafa greint frá því að hún hafi hringt í Støre í kvöld, játað ósigur og óskað honum til hamingju með sigurinn.

Búið er að telja 97,5 prósent atkvæða og samkvæmt þeim mun rauða blokkin svokallaða, sem  Gahr Støre leiðir, ná 100 þingsætum, gegn 68 þingsætum bláu blokkarinnar, sem Solberg leiðir.

Rauða blokkin samanstendur af Verkamannaflokknum, Miðflokknum, Vinstri sósíalistum, Rauða flokknum og Græningjum.

Fyrir kosningarnar sagðist Gahr Støre helst vilja mynda draumaríkisstjórnina sína með Miðflokki og Vinstri sósíalistum. Allt útlit er fyrir að þessir flokkar hafi nægan þingstyrk til að mynda ríkisstjórn, eða 87 sæti. 85 sæti eða fleiri nægja til að mynda meirihluta.

Segir Gahr Støre að hann muni byrja að ræða við formenn þessa flokka, en hann muni þó einnig heyra í formönnum Rauða flokksins og Græningja.

Gahr Støre var afar kátur er hann ávarpaði liðsfélaga sína í kvöld.

„Við höfum beðið, við höfum vonað og við höfum lagt hart að okkur og núna getum við loksins sagt að okkur tókst það,“ sagði Gahr Støre.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×