Erlent

FBI opinberar fyrsta skjalið um árásirnar 2001

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölskyldur fólks sem fórst í árásunum hafa lengii haldið því fram að embættismenn í Sádi-Arabíu hafi vitað af hryðjuverkamönnum í Bandaríkjunum og mögulega hvað þeir ætluðu sér.
Fjölskyldur fólks sem fórst í árásunum hafa lengii haldið því fram að embættismenn í Sádi-Arabíu hafi vitað af hryðjuverkamönnum í Bandaríkjunum og mögulega hvað þeir ætluðu sér. AP/Chao Soi Cheong

Alríkislögregla Bandaríkjanna (FBI) svipti í gær leyndarhulunni af fyrsta skjalinu í tengslum við árásirnar á Tvíburaturnana og Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í september 2001. Skjalið snýr að aðstoð sem tveir hryðjuverkamenn frá Sádi-Arabíu fengu í aðdraganda árásanna.

Skjalið, sem er sextán blaðsíður, sýnir að mennirnir voru í samskiptum við aðra Sáda í Bandaríkjunum en AP fréttaveitan segir það ekki sanna aðkomu embættismanna frá Sádi-Arabíu að hryðjuverkunum, eins og fjölskyldur fórnarlamba hafa haldið fram.

Um er að ræða samantekt á yfirheyrslu yfir manni sem var í samskiptum við Sáda í Bandaríkjunum, menn sem veittu hryðjuverkamönnunum aðstoð í aðdraganda árásanna.

Fimmtán af þeim nítján mönnum sem tóku þátt í árásunum voru frá Sádi-Arabíu og Osama bin Laden, fyrrverandi leiðtogi al-Qaeda var sömuleiðis þaðan.

Joe Biden, forseti, gaf fyrr í mánuðinum út forsetatilskipun um að svipta ætti skjöl FBI leyndar og var það að miklu leyti vegna pressu frá Bandaríkjaþingi og fjölskyldum fórnarlamba hryðjuverkanna sem stefnt hafa yfirvöldum í Sádi-Arabíu.

Sjá einnig: Leynd verður aflétt af rannsóknargögnum FBI

Ráðamenn í Sádi-Arabíu hafa ávallt þvertekið fyrir að þarlendir embættismenn hafi aðstoðar hryðjuverkamennina á nokkurn hátt og hafa stutt það að svipta gögn sem snúa að rannsókn FBI leynd.

AP hefur eftir lögmanni áðurnefndra fjölskylda sem hafa höfðað mál gegn Sádi-Arabíu að skjalið og önnur gögn sem hefur verið safnað sýni fram á að hryðjuverkamenn al-Qaeda hafi starfað innan Bandaríkjanna með vitneskju og stuðningi ríkisstjórnar Sádi-Arabíu.

Lögmaðurinn, sem heitir Jim Kreindler, sagði embættismenn hafa rætt við hryðjuverkamenn og hjálpað þeim við að koma sér fyrir í Bandaríkjunum og komast í flugskóla.

Starfsmenn FBI rannsökuðu á sínum tíma mögulega aðkomu embættismanna og annarra frá Sádi-Arabíu að hryðjuverkunum og þar á meðal menn sem áttu í samskiptum við hryðjuverkamennina. Engar beinar vísbendingar um aðkomu ríkisstjórnar konungsríkisins að árásunum hafa þó fundist.


Tengdar fréttir

Al­þjóða­kerfið eftir 11. septem­ber 2001: Banda­ríkin grófu undan eigin stöðu með við­brögðunum

Strax að kvöldi 11. september 2001 voru George W. Bush og hans fólk viss um að Al-Qaeda stæði bak við árásirnar mannskæðu. Þjóðaröryggisráðið kom saman, en þar var einhugur um að Bandaríkin þyrftu að svara fyrir sig. Al-Qaeda og Osama Bin Laden hefðu skákað í skjóli Talibana í Afganistan í áraraðir en nú yrði gripið til aðgerða. Enginn greinarmunur yrði gerður á milli Al-Qaeda og Talibana og önnur ríki skyldu láta sér það að kenningu verða.

20 ár frá 11. septem­ber 2001: Dagurinn sem allt breyttist

Sum andartök eru þess eðlis að tilvera þess sem upplifir þau verður aldrei söm á eftir. Fá hafa þó skekið heimsbyggðina jafn skyndilega og jafn afgerandi og þegar tvær farþegaþotur skullu á Tvíburaturnunum við World Trade Center á Manhattan á heiðskírum þriðjudagsmorgni fyrir réttum 20 árum, hinn 11. september árið 2001.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.