Umfjöllun og viðtöl: Skagamenn enn á lífi í deildinni eftir sigur á Leikni

Sverrir Mar Smárason skrifar
ÍA heldur í vonina um sæti í Pepsi Max deildinni 2022.
ÍA heldur í vonina um sæti í Pepsi Max deildinni 2022. Vísir/Bára Dröfn

Skagamenn fengu Leiknir R. í heimsókn á Akranes í dag í botnbaráttuslag þar sem ÍA þurfti nauðsynlega á þremur stigum að halda til þess að auka möguleika sína á því að bjarga sér frá falli. Leiknir með 22 stig fyrir leikinn og ansi mikið þarf að gerast svo þeir fari niður í Lengjudeildina að ári.

Leikurinn fór hægt af stað og lítið í gangi. Nokkuð augljóst var að hvorugt liðið vildi tapa leiknum. Skagamenn gáfu þó aðeins í eftir um korters leik og þeir uppskáru svo fyrsta markið á 24.mínútu. Brynjar Snær Pálsson sendi boltann inn í teig úr hornspyrnu, boltinn af Leiknismanni og beint á höfuðið á Viktori Jónssyni sem skallaði boltann í netið. Skagamenn komnir yfir.

Fimm mínútum síðar sendi Gísli Laxdal fyrirgjöf inn á fjærstöng þar sem Brynjar Hlöðversson og Viktor Jónsson áttust við. Vilhjálmur Alvar, dómari leiksins, dæmdi Brynjar brotlegan fyrir að toga niður Viktor og Skagamenn fengu víti. Steinar Þorsteinsson fór á punktinn, sendi Guy Smit í vitalust horn og skoraði auðveldlega. Skagamenn gátu því andað aðeins léttar, komnir með tveggja marka forystu og einhver deyfð yfir Leiknismönnum.

Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks skiptust liðin á að fá auka- og hornspyrnur tókst ekki að skapa ákjósanleg martækifæri. Hálfleikstölur því 2-0, ÍA í vil.

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, virtist hafa náð að kveikja aðeins í sínum mönnum í hálfleiksræðu sinni því Leiknismenn komu töluvert grimmari út í síðari hálfleik. Þeim tókst að minnka muninn á 53.mínútu þegar boltinn barst út til vinstri á Brynjar Hlöðversson eftir að Leiknismenn höfðu átt hornspyrnu hinum megin. Brynjar sendi góða fyrirgjöf inn í teig og á fjærstöng var Daníel Finns mættur. Hann reyndi viðstöðulaust skot á lofti, setti boltann í bláhornið og staðan orðin 2-1.

Eftir markið lágu Leiknismenn mikið á varnarlínu Skagamanna sem ógnuðu lítið fyrir utan nokkrar góðar skyndisóknir. Eftir eina slíka, á 70.mínútu, fengu Skagamenn hornspyrnu. Gísli Laxdal tók spyrnuna og sendi inn í teiginn. Guy Smit, markvörður Leiknis, kýldi fyrst boltann frá og varði síðan skot frá Viktori Jónssyni. Viktor fékk boltann aftur, lagði hann inn í markteig þar sem Hákon Ingi Jónsson stóð aleinn og lagði boltann yfir línuna. Skagamenn komnir í 3-1.

Leiknismenn pressuðu mikið síðustu tuttugu mínútur leiksins og ýttu oft á tíðum öllum leikmönnum ÍA niður í kringum sinn eigin vítateig. Vörn Skagamanna hélt þó og fögnuðu þeir að lokum góðum sigri og lífsnauðsynlegum þremur stigum.

Af hverju vann ÍA?

Skagamenn voru agaðir og skipulagðir varnarlega á sama tíma og þeir nýttu sín tækifæri. Leiknismenn voru arfaslakir í fyrri hálfleik og nýtti ÍA liðið sér það vel.

Hverjir stóðu upp úr?

Viktor Jónsson var maður leiksins að mínu mati. Lúsiðinn í fremstu línu, sífellt að ógna auk þess sem hann skoraði fyrsta markið, fiskaði vítið og lagði upp síðasta mark ÍA.

Gísli Laxdal og Steinar Þorsteinsson voru einnig öflugir og hættulegir í sóknarleik Skagamanna. Öll varnarlína ÍA fær einnig kall.

Hvað hefði mátt betur fara?

Leiknir mættu varla til leiks í fyrri hálfleik og það þarf að breytast ef þeir vilja ekki lenda í vandræðum í lokin.

Hvað gerist næst?

Skagamenn eiga fyrst leik í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins gegn ÍR áður en þeir hálfgerðan úrslitaleik gegn Fylki á heimavelli sunnudaginn 19.september.

Leiknismenn eiga sömuleiðis hörkuleik í fallbaráttunni þegar þeir fá Keflavík í heimsókn í Breiðholtið. Sá leikur er einnig 19.september.

Jóhannes KarlVísir/Bára Dröfn

Jóhannes Karl Guðjónsson: Ég segi það enn og aftur, við ætlum ekki að falla,

Jóhannes Karl, þjálfari ÍA, segir leikmannahópinn hafa óbilandi trú á því að geta haldið sér í deildinni og vill að bæjarbúnar sjái það að strákarnir séu þess virði að trúa á.

Trúin er bara góð og ég get alveg viðurkennt það að trúin í leikmannahópnum hefur kannski ekki endurspeglað trúnna hérna á Skaganum í samfélaginu. Það er bara eitthvað sem við getum sýnt eins og með frammistöðunni í dag að vonandi fer fólkið að trúa meira á okkur. Ég hef talað fyrir því í allt sumar, strákarnir trúa því og við þurfum að taka trúnna meira með okkur og oftar inn á völlinn í lengri hluta af leikjunum. Við ætlum okkur að vera áfram í efstu deild. Það er bikarleikur næst og svo er það Fylkir hérna heima og þrjú stig í honum munu gera þetta mjög áhugavert inn í lokaleikinn á tímabilinu gegn Keflavík. Ég segi það enn og aftur, við ætlum ekki að falla,“ sagði Jóhannes Karl.

Sigurður höskuldssonVísir/Hulda Margrét

Sigurður Heiðar Höskuldsson: Fyrri hálfleikurinn hlítur að vera lélegasta frammistaða í sögu Leiknis

Sigurður Heiðar, þjálfari Leiknis, var hundfúll með leik sinna manna í dag og boðaði miklar breytingar fyrir næsta leik.

Fyrri hálfleikurinn hlítur að vera lélegasta frammistaða í sögu Leiknis og það voru ekki falleg orð inni í hálfleik. Kom smá líf í okkur í byrjun seinni og leit svona út fyrir að vera kannski að fara að detta eitthvað meira og við fengum alveg einhverja sénsa en þessi fyrri hálfleikur lita frammistöðuna bara það mikið að ég get ekki talað vel um fyrri hálfleikinn. Ég sé þessa síðustu tvo leiki þar sem að menn þurfa að spila fyrir sínum rétti að spila í þessari treyju miðað við hvernig þetta var í dag. Það verða fullt af breytingum fyrir næsta leik og við þurfum að spýta í lófana ef við ætlum ekki að láta þetta mót bara eyðileggjast,“ sagði Sigurður verulega ósáttur.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.