Erlent

Framlengja Brexit-aðlögun Norður-Írlands

Kjartan Kjartansson skrifar
Áróðursskilti gegn Brexit á Norður-Írlandi árið 2018. Ótti margra var að gömul átök sambands- og þjóðernissinna tækju sig upp aftur ef komið yrði upp hörðum landamærum á milli Írlands og Norður-Írlands.
Áróðursskilti gegn Brexit á Norður-Írlandi árið 2018. Ótti margra var að gömul átök sambands- og þjóðernissinna tækju sig upp aftur ef komið yrði upp hörðum landamærum á milli Írlands og Norður-Írlands. Vísir/EPA

Bresk stjórnvöld tilkynntu í dag að aðlögunartími fyrir innflutning til Norður-Írlands eftir útgönguna úr Evrópusambandinu verði enn framlengt. Frestinum er ætlað að veita Bretum og Evrópusambandinu meiri tíma til að komast að niðurstöðu um varanlega lausn.

Eitt helsta vandræðamálið sem þurfti að leysa áður en Bretland gat gengið úr Evrópusambandinu í upphafi árs var hvernig viðskipti á milli sambandsins og Bretlands yrði háttað á Norður-Írlandi. 

Írland er enn í Evrópusambandinu en enginn vilji var til þess að setja upp landamæra- og tollaeftirlit á mörkum Írlands og Norður-Írlands þar sem það var talið geta ógnað brothættum friði sem hefur ríkt undanfarna áratugi. Hins vegar var heldur ekki áhugi á að takmarka viðskipti á milli Norður-Írlands og annarra hluta Bretlands.

Niðurstaðan var sú að ákveðnar vörur sæta tollaeftirliti sem fara á milli Norður-Írlands og Bretlands austan Írlandshafs tímabundið eftir útgönguna. Það fyrirkomulag hefur valdið töluverðri spennu á Norður-Írlandi og átti meðal annars þátt í óeirðum sambandssinna fyrr á þessu ári.

Bresk stjórnvöld vilja semja um breytingar á fyrirkomulaginu á Norður-Írlandi en Evrópusambandið hefur fram að þessu ekki ljáð máls á því. Sambandið telur bresk stjórnvöld hafa brotið samkomulag með því að breyta reglum um viðskipti um Norður-Írland en ákvað að bíða með málaferli vegna þess í sumar.

David Frost, Brexit-ráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að þetta aðlögunartímabil Norður-Írlands haldi áfram um sinn.

„Til þess að skapa svigrúm fyrir mögulegar frekari viðræður og til að veita fyrirtækjum vissu og stöðugleika á meðan slíkar viðræður færu fram ætlar ríkisstjórnin að halda áfram reglunum eins og þær eru,“ sagði Frost í yfirlýsingu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir

Leiðtogi norðurírsku heimastjórnarinnar segir af sér

Arlene Foster, oddviti heimastjórnar Norður-Írlands, sagði af sér vegna innanflokksátaka í Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP) um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í dag. Hún ætlar jafnframt að stíga til hliðar sem leiðtogi flokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×