Erlent

Valda­ráns­menn í Gíneu boða nýja þjóð­stjórn

Kjartan Kjartansson skrifar
Mamadi Doumbouya ofursti (f.m.) í fararbroddi valdaránsmanna í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar á sunnudag. Þeir tóku Alpha Condé forseta höndum og felldu stjórnarskrána úr gildi.
Mamadi Doumbouya ofursti (f.m.) í fararbroddi valdaránsmanna í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar á sunnudag. Þeir tóku Alpha Condé forseta höndum og felldu stjórnarskrána úr gildi. AP/Radio Television Guineenne

Leiðtogi valdaránsmanna sem steyptu Alpha Condé, forseta Gíneu, af stóli um helgina boðar að ný þjóðstjórn verði mynduð á næstu vikum. Condé er enn í haldi valdaránsmanna og ekki liggur fyrir hvað verður um hann.

Sérsveit gíneska hersins tók Condé höndum og rændi völdum í Vestur-Afríkulandinu í gær. Tilkynntu hermennirnir að stjórnarskrá landsins hefði verið felld úr gildi, landamærunum lokað og útgöngubanni á landsvísu komið á.

Mamady Doumbouya, ofursti og leiðtogi valdaránsmannanna, segir að þjóðstjórnin eigi að stýra breytingunum sem fram undan eru, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Hann lofar ráðherrum sem sátu í stjórn Condé að þeir verði ekki ofsóttir. Þeir megi hins vegar ekki yfirgefa landið og þeir verði að skila bifreiðum sem þeir fengu frá ríkisstjórninni.

Sameinuðu þjóðirnar, Afríkubandalagið og Efnahagssamband Vestur-Afríkuríkja (Ecowas) hafa öll fordæmt valdaránið og krafist þess að borgaralegri stjórn verði aftur komið á í Gíneu. Doumbouya réttlætti valdaránið með því að hann hafi viljað binda enda á gengdarlausa spillingu, mannréttindabrot og óstjórn.

Gínea er einn stærsti útflytjandi báxíðs í heiminum en það er notað til að framleiða súrál. Heimsmarkaðsverð á áli tók stökk eftir valdaránið og hefur það ekki verið hærra í áratug. Doumbouya sagði námufyrirtækjum að halda áfram framleiðslu sinni þar sem þau væru undanskilin útgöngubanninu í landinu.

Condé var endurkjörin forseti í annað sinn í skugga ofbeldisfullra mótmæla í fyrra. Hann hefur verið sakaður um ofsóknir gegn pólitískum andstæðingum og mannréttindabrot.

Mamoudou Nagnalen Barry, stofnandi stjórnarandstöðuflokksins Þjóðfylking til varnar stjórnarskránni (FNDC), segir tilfinningar sínar um valdaránið blendnar en að hann taki því þó fagnandi. Hann vonist til þess að herinn skili völdunum brátt aftur í hendur óbreyttra borgara.


Tengdar fréttir

Leik aflýst vegna valdaránstilraunar

Fyrirhuguðum leik Gíneu og Marókkó í undankeppni HM karla sem átti að fara fram á morgun var aflýst vegna valdaránstilraunar í Gíneu. Marokkómenn hafa yfirgefið landið.

Leik aflýst vegna valdaránstilraunar

Fyrirhuguðum leik Gíneu og Marókkó í undankeppni HM karla sem átti að fara fram á morgun var aflýst vegna valdaránstilraunar í Gíneu. Marokkómenn hafa yfirgefið landið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.