Fótbolti

Þakkar stuðninginn og segir markið hafa verið hina full­komnu af­mælis­gjöf

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bukayo Saka í leiknum gegn Andorra.
Bukayo Saka í leiknum gegn Andorra. Marc Atkins/Getty Images

Bukayo Saka, leikmaður Arsenal og enska landsliðsins, sneri aftur á Wembley-leikvanginn í 4-0 sigri Englands á Andorra í undankeppni HM í fótbolta . Hann hafði ekki stigið fæti þar inn síðan hann brenndi af vítaspyrnunni sem tryggði Ítalíu sigur á Evrópumótinu fyrr í sumar.

Saka, sem fagnaði 20 ára afmæli sínu á sunnudag er leikurinn fór fram, skoraði fjórða og síðasta mark Englands í leiknum. Hann segir þann stuðning sem hann fékk á meðan leik stóð ómetanlegan en eftir að brenna af vítaspyrnunni gegn Ítalíu varð hann fyrir barðinu á kynþáttaníði og almennum viðbjóði á samfélagsmiðlum.

„Þetta var fullkomin afmælisgjöf. Ég er mjög ánægður með þær mótttökur sem ég fékk hér í kvöld. Það sýnir hversu stolt fólk er fyrir mína hönd og það gerði mikið fyrir mig. Það fékk mig til að gefa allt sem ég átti í leikinn,“ sagði Saka í viðtali eftir leik.

„Það breytir öllu. Meira að segja núna get ég heyrt stuðningsfólk okkar syngja nafn mitt. Það skiptir öllu máli. Það fær mig til að trúa að allir styðji við bakið á mér. Þetta er það sem mig dreymdi um, að spila á fullum Wembley fyrir framan fjölskylduna mína og skora á afmælisdaginn. Ég er mjög hamingjusamur,“ bætti þessi tvítugi leikmaður við.

Ásamt því að skora eitt þá lagði Saka einnig upp annað af tveimur mörkum Jesse Lingard í leiknum. Með sigrinum er enska liðið komið skrefi nær HM sem fram fer í Katar á næsta ári. Liðið mætir Póllandi ytra þann 8. september í líklega erfiðasta leik liðsins í undankeppninni til þessa.


Tengdar fréttir

Lingard með tvö í sigri Englands á Andorra

England vann 4-0 sigur á Andorra er liðin mættust á Wembley í Lundúnum í I-riðli undankeppni HM karla í fótbolta á næsta ári. Hálfgert B-lið Englendinga mætti til leiks sem átti í vandræðum framan af leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×