Innlent

Skyndiákvörðun poppara um að bruna í bæinn varð hröktum ferðalöngum mögulega til lífs

Snorri Másson skrifar
Rúnar Þór Pétursson tónlistarmaður var sem betur fer á ferð um Kleifarheiði í gærkvöldi.
Rúnar Þór Pétursson tónlistarmaður var sem betur fer á ferð um Kleifarheiði í gærkvöldi. Vísir

Tveimur rúmenskum karlmönnum var bjargað eftir miklar hrakningar í vonskuveðri eftir að bifreið þeirra varð alelda á miðri Kleifaheiði í gærkvöldi. Ökumaður sem ákvað að drífa sig suður um kvöldið segir það mildi að hann hafi fundið þá hjálparlausa á heiðinni.

Rúnar Þór Pétursson tónlistarmaður kláraði seint í gærkvöldi að spila fyrir fullu félagsheimili á Patriksfirði með nýju blúsbandi. Hann tók ákvörðun í skyndi um að bruna suður til Reykjavíkur um nóttina þrátt fyrir hræðilega veðurspá.

„Ég einhverra hluta vegna ákveð að skella mér af stað þótt veðurspáin væri hræðileg, með brjáluðu veðri og rigningu og roki. Ég er búinn að keyra í 20 mínútur hálftíma og þá er fyrsta heiðin og þá sé ég það sem ég held að sé bara logandi hnöttur eða eitthvað,“ segir Rúnar.

Þegar nær dró sá Rúnar að um var að ræða alelda bíl, eða raunar bílgrind, því það var lítið eftir af henni. Hann hugsaði með sér að ef einhver væri þar inni væri gæti hann ekki verið á lífi. Því afréð hann að leita mögulegra farþega í myrkrinu.

„Þá var spurningin að fara fram hjá bílnum, því ég gat þá bara kveikt í mínum ef ég hefði lent í bílnum. En ég er Ísfirðingur þannig að ég set bara allt í botn, því að ef einhver er úti í þessu veðri á hann ekki langan tíma,“ segir Rúnar.

Alelda Volkswagen-bifreið á Kleifarheiði.Aðsend mynd

Eftir nokkurra mínútna akstur fann hann mennina tvo, Rúmena á þrítugsaldri. Þeir voru illa haldnir og skelkaðir og annar þeirra var síhóstandi. Rúnar skildi þá svo að þeir hafi ekki getað hringt á Neyðarlínuna vegna handskjálfta. 

Að sögn Rúnars höfðu mennirnir heyrt sprengingu og á augabragði varð bíllinn alelda. Þeir hafi rétt komist undan. Eftir að sjúkrabíll sótti þá hélt Rúnar áfram og mætti ekki öðrum bíl fyrr en eftir klukkutíma. Það var því ljóst að ef hann hefði ekki verið þarna fyrir tilviljun hefði líklega verið of langt þar til mennirnir hefðu mætt næsta bíl.

Bíllinn var alveg skemmdur eftir eldinn.Aðsend mynd

„Svo er ég nú einn af þessum gömlu góðu poppurum. Allir nýir popparar fara að sofa um tíuleytið. Við erum örfáir eftir sem vökum til fimm á nóttinni. Það borgaði sig í þetta skiptið,“ segir Rúnar að lokum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.