Erlent

Langvarandi Covid helmingi fátíðara hjá fullbólusettum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það var vitað að bólusetning veitti góða vörn gegn alvarlegum veikindum og nú berast góðar fréttir af vörn gegn langvarandi Covid.
Það var vitað að bólusetning veitti góða vörn gegn alvarlegum veikindum og nú berast góðar fréttir af vörn gegn langvarandi Covid. epa/Andy Rain

Rannsakendur við King's College London hafa komist að þeirri niðurstöðu að bólusetningar gegn Covid-19 dragi ekki bara úr líkunum á því að smitast og veikjast alvarlega, heldur séu fullbólusettir síður líklegir til að þjást af langvarandi einkennum.

Óbólusettir eru þannig 50 prósent líklegri en fullbólusettir til að greinast með svokallað „langvarandi Covid“. Það er greint þegar einkenni sjúkdómsins hafa varað lengur en fjórar vikur.

Jafnvel þótt fólk hafi upplifað væg einkenni Covid getur það glímt við afleiðingarnar í langan tíma.

Niðurstöðurnar byggja á upplýsingum sem safnað var með Zoe-rannsóknarsmáforritinu, þar sem notendur greina frá niðurstöðum skimana, greiningu, einkennum og bólusetningarstöðu.

Frá desember 2020 og fram í júlí á þessu ári voru gögn um 2 milljón einstaklinga skoðuð. 1,2 milljón hafði fengið einn skammt af bóluefni og 970.000 voru fullbólusettir.

Um 0,2 prósent fullbólusettra sögðust hafa greinst með Covid-19 eftir bólusetningu. Af 592 sem gáfu upplýsingar í meira en mánuð voru 5 prósent greindir með langvarandi Covid. Hlutfallið meðal óbólusettra var 11 prósent.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að þeir sem voru líklegastir til að greinast með Covid-19 eftir bólusetningu voru „viðkvæmir“ hópar, til dæmis aldraðir.

BBC greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×