Fótbolti

Rúnar Alex á leið til Belgíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúnar Alex er á leið til Belgíu á láni.
Rúnar Alex er á leið til Belgíu á láni. Nick Potts/Getty Images

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður Íslands og markvörður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, er á leið til belgíska úrvalsdeildarliðsins OH Leuven á láni. Frá þessu er greint á vef The Athletic.

Samkvæmt frétt The Athletic ganga viðræður vel og styttist í að hinn 26 ára gamli Rúnar Alex verði leikmaður OH Leuven. Markvörðurinn hefur ekki átt upp á pallborðið hjá Mikel Arteta og er orðinn þriðji markvörður liðsins nú eftir að Aaron Ramsdale var keyptur frá Sheffield United á dögunum.

Verandi með Bernd Leno og Ramsdale hefur Arsenal tekið þá ákvörðun að lána Rúnar til Belgíu. Hann ætti að þekkja ágætlega til en hann ólst upp þar í landi þar sem faðir hans, Rúnar Kristinsson, lék lengi vel með Lokeren.

Leuven situr sem stendur í 17. sæti deildarinnar, af 18 liðum. Þegar sex umferðir eru búnar hefur liðið ekki unnið leik. Fjögur jafntefli og tvö töp niðurstaðan til þessa.

Rúnar Alex á að baki 10 A-landsleiki og er í íslenska landsliðshópnum sem undirbýr sig nú fyrir þriggja leikja törn í undankeppni HM. Allir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×