Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Um klukkan 1 í nótt voru höfð afskipti af manni fyrir utan verslun í Kópavogi. Sá var mjög ölvaður og hafði stungið einhverju inn á sig og gengið út en þegar starfsmaður hugðist ræða við manninn brást hann illa við og reyndi að stinga af á rafhlaupahjóli.
Maðurinn lét varninginn hins vegar af hendi þegar lögregla mætti á vettvang.
Lögregla hafði einnig afskipti af konu sem ók niður umferðarskilti og er grunuð um ölvun við akstur. Þá voru þrír aðrir stöðvaðir við akstur undir áhrifum.
Tveir voru stöðvaðir í kjölfar hraðamælinga í Háaleitis- og Bústaðahverfi en þeir reyndust á 124 km/klst og 123 km/klst þar sem hámarkshraðinn er 80 km/klst.