Enski boltinn

Sá besti fram­lengir til 2027

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúben verður áfram hjá Manchester City.
Rúben verður áfram hjá Manchester City. Matt McNulty/Getty Images

Portúgalski varnarmaðurinn Rúben Dias hefur framlengt samning sinn við Englandsmeistara Manchester City til ársins 2027. Aðeins er rétt ár síðan Dias gekk í raðir City.

Rúben Dias kom eins og stormsveipur inn í lið Manchester City og ensku úrvalsdeildina fyrir tæpu ári síðan. Hann var hreint út sagt frábær er Man City landaði sigri í ensku úrvalsdeildinni og fór alla leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Á síðustu leiktíð lék Dias 50 leiki í öllum keppnum fyrir Man City og skoraði eitt mark. Hélt liðið hreinu í 15 af þeim 32 deildarleikjum sem Dias spilaði. Var hann að tímabilinu loknu valinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni.

Hinn 24 ára gamli Dias hefur byrjað núverandi tímabil af álíka krafti og meðal annars lagt upp eitt mark í þremur leikjum City til þessa. Eftir að fá á sig eitt mark gegn Tottenham Hotspur í fyrstu umferð hefur liðið haldið hreinu gegn Norwich City og Arsenal.

Dias hefur nú verið verðlaunaður fyrir frammistöður sína en hann skrifaði í dag undir nýjan samning sem gildir til ársins 2027.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×