Íslenski boltinn

Pétur Theo­dór til liðs við Breiða­blik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pétur Theódór Árnason mun ganga til liðs við Breiðablik í haust.
Pétur Theódór Árnason mun ganga til liðs við Breiðablik í haust. Eyjólfur Garðarson

Breiðablik, topplið Pepsi Max deildar karla, hefur tilkynnt að Pétur Theódór Árnason, framherji Gróttu í Lengjudeildinni, muni ganga til liðs við félagið að tímabilinu loknu.

Pétur Theódór lék undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar og Halldórs Árnason hjá Gróttu en þeir stýra nú liði Breiðabliks. Gerir Pétur Theódór þriggja ára samning við Kópavogsliðið.

Blikar eru ekki á flæðiskeri staddir þegar kemur að markaskorurum en liðið er þó frekar fámennt í fremstu víglínu. Thomas Mikkelsen hélt heim á leið til Danmerkur fyrir ekki svo löngu síðan. Sævar Atli Magnússon átti að ganga til liðs við Breiðablik í haust en ákvað að nýta sér ákvæði í samningi sínum og semja við Lyngby í Danmörku.

Með tilkomu Péturs hefur verið fyllt upp í eitthvað af þeim skörðum sem höggin hafa verið í framlínu Blika. Að því sögðu er félagið á blússandi siglingu um þessar mundir og í kjörstöðu til að landa sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli frá árinu 2010.

„Grótta og Breiðablik hafa náð samkomulagi um að framherjinn stóri og stæðilegi Pétur Theódór Árnason gangi til liðs við Blika fyrir næsta keppnistímabil. Pétur sem er 25 ára framherji er sem stendur markahæsti leikmaðurinn í Lengjudeildinni 2021 með 18 mörk í 19 leikjum,“ segir í tilkynningu Blika.

„Pétur hefur spilað 152 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 74 mörk. Pétur er ekki eingöngu góður knattspyrnumaður heldur einnig góður félagsmaður. Hann var kosinn Íþróttamaður Gróttu árið 2019 og Íþróttamaður Seltjarnarness árið 2020,“ segir einnig í tilkynningunni.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.