Enski boltinn

Özil hæddist að Arteta eftir tapið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Özil hugsar ekki hlýtt til Arteta.
Özil hugsar ekki hlýtt til Arteta. vísir/getty

Þjóðverjinn Mesut Özil, leikmaður Fenerbahce í Tyrklandi og fyrrum leikmaður Arsenal á Englandi, sendi kaldhæðnislega kveðju á félagið og stjóra þess Mikel Arteta eftir 5-0 tap þess fyrir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leikmenn Arsenal voru heillum horfnir gegn Englandsmeisturunum í dag þar sem þeir voru lentir 2-0 undir eftir minna en stundarfjórðung. Granit Xhaka fékk þá að líta beint rautt spjald og voru tíu leikmenn Skyttanna varnarlausir gegn City sem vann leikinn 5-0.

Arsenal á enn eftir að skora mark og er án stiga á botni deildarinnar með markatöluna 0-9.

Mikil pressa er á Mikel Arteta, knattspyrnustjóra Arsenal, sem hefur gengið erfiðlega frá því að hann tók við liðinu árið 2019. Fræg eru ummæli hans frá því í fyrra þar sem hann bað stuðningsmenn um trú á verkefnið (e. trust the process), þar sem hann líti til langs tíma og þolinmæði þurfi áður en árangur næst.

Mesut Özil, sem var ekki í náðinni hjá Arteta og yfirgaf Arsenal í fyrra, hæddist að fyrrum stjóra sínum með því að grípa til þeirra ummæla á Twitter strax eftir leik með meðfylgjandi tjáknum.

Özil var lengi vel á meðal bestu leikmanna Arsenal og á meðal betri sóknartengiliða heims, en fór hratt niður vinsældalistann hjá stuðningsmönnum liðsins eftir að hann skrifaði undir risastóran þriggja ára samning upp á 350 þúsund pund í vikulaun árið 2018.

Eftir undirskriftina hrakaði frammistöðum hans verulega og hann gerði fátt til að standa undir kaupinu allt þar til félagið losaði sig við hann í fyrra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.