Enski boltinn

Solskjær gefur Ronaldo undir fótinn: „Hann veit að við erum hér“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ole Gunnar Solskjaer og Cristiano Ronaldo fagna í leik með Manchester United fyrir fjórtán árum.
Ole Gunnar Solskjaer og Cristiano Ronaldo fagna í leik með Manchester United fyrir fjórtán árum. getty/Matthew Peters

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, gaf Cristiano Ronaldo hressilega undir fótinn á blaðamannafundi í dag.

Ronaldo er á förum frá Juventus og flest bendir til þess að hann sé á leið til Manchester City. Miðað við orð Solskjærs á blaðamannafundinum í dag myndi hann þó ekki slá hendinni á móti því að fá Ronaldo aftur til United.

„Við höfum alltaf verið í góðu sambandi. Bruno [Fernandes] hefur líka rætt við hann og hann veit hvað okkur finnst um hann. Ef hann fer einhvern tímann frá Juventus veit hann að við erum hér,“ sagði Solskjær.

„Ronaldo er goðsögn hjá þessu félagi og besti leikmaður allra tíma að mínu mati. Ég var svo heppinn að spila með honum. Við sjáum hvað gerist.“

Ronaldo lék með United á árunum 2003-09 og varð þrisvar sinnum Englandsmeistari og einu sinni Evrópumeistari með liðinu.

Á blaðamannafundi í dag staðfesti Massimiliano Allegri, stjóri Juventus, að Ronaldo hafi tjáð sér að hann vildi yfirgefa félagið. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum við Juventus sem hann hefur leikið með síðan 2018.

United hefur þegar keypt Jadon Sancho og Raphaël Varane í sumar. Liðið mætir Wolves á útivelli í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.


Tengdar fréttir

Ronaldo búinn að biðja um sölu frá Juventus

Cristiano Ronaldo, einn besti knattspyrnumaður heims, vill komast burt frá ítalska stórveldinu Juventus. Talið er að Juventus fari fram á 25-30 milljónir evra fyrir Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×