Erlent

Mannskæð sprengjuárás í mannþröng við flugvöllinn í Kabúl

Árni Sæberg og Kjartan Kjartansson skrifa
Afganar veifa vegabréfsáritunum að erlendum hermönnum til að reyna að komast úr landi við flugvöllinn í Kabúl í dag áður en mannskæð árás var gerð í mannþrönginni.
Afganar veifa vegabréfsáritunum að erlendum hermönnum til að reyna að komast úr landi við flugvöllinn í Kabúl í dag áður en mannskæð árás var gerð í mannþrönginni. Vísir/EPA

Að minnsta kosti þrettán manns eru látnir eða særðir eftir mannskæða sprengju- og skotárás í mannþröng við flugvöllinn í Kabúl í dag. Talsmaður talibana fullyrðir að konur og börn séu á meðal þeirra látnu.

John Kirby, fjölmiðlafulltrúi bandaríska varnamálaráðuneytisins, staðfesti á Twitter að sprengingin hafi orðið við svonefnt Abbey-hlið flugvallarins. Fjöldi bandarískra og afganskra borgara hafi látið lífið eða særst. Þá hafi önnur sprenging átt sér stað við Baron-hótelið nærri hliðinu þar sem bresk yfirvöld hafa farið yfir skjöl breskra og afganskra borgara sem eiga rétt á brottflutningi frá landinu.

Bandarískur embættismaður segir AP-fréttastofunni að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams séu „örugglega talin“ hafa staðið að árásinni. Tveir sjálfsmorðssprengjumenn og nokkrir byssumenn eru sagðir hafa tekið þátt í árásinni.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir talsmanni talibana að í það minnsta ellefu manns séu látnir í árásinni, þar á meðal konur og börn. Verðir á vegum talibana hafi særst. Sky-fréttastöðin segir að þrettán manns hafi látist, þar á meðal börn, og hefur það eftir talibönum. Ekki er ljóst hvað skýrir misræmið í tölu látinna. Þá segir stöðina að tvær sprengingar hafi orðið.

Wall Street Journal fullyrðir að sprengja hafi sprungið inni í hóp Afgana sem reyndi að komast inn á flugvöllinn til að forða sér úr landi. Sjónarvottur segir blaðinu að sprengja hafi sprungið innan um þúsundir manna. Hann hafi séð fjölda særðra og verið sagt af mannfalli. Þrír banadrískir hermenn eru sagðir hafa særst í árásinni.

AP-fréttastofan hefur eftir afgönskum karlmanni á staðnum að hann hafi séð fólk sem virtist látið og að hann hafi séð fólk sem hafði misst útlimi.

Fréttaritarar bæði Sky og BBC hafa lýst aðstæðum þannig að sprenging eða sprengingar hafi orðið í fráveituskurði þar sem afganskir flóttamenn biðu eftir að farið væri yfir ferðaleyfi þeirra. Sjálfsmorðsprengjuárásarmaður hafi látið til skarar skríða og að annar árásarmaður hafi svo hafið skotárás.

Í spilaranum hér fyrir neðan má fylgjast með fréttum Sky-sjónvarpsstöðvarinnar bresku af árásinni.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu höfðu varað þegna sína við mögulegum hryðjuverkaárásum á flugvöllinn í Kabul höfuðborg Afganistans og ráðlagt þeim frá ferðalögum þangað. Þeim sem eru í mannmergðinni fyrir utan flugvöllinn var ráðlagt að yfirgefa svæðið.

Hvíta húsið hefur staðfest að Joe Biden Bandaríkjaforseti hafi verið upplýstur um árásina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.