Fótbolti

Arnar Þór hefur ekki rætt við Gylfa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundi KSÍ í dag.
Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundi KSÍ í dag. vísir/vilhelm

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segist ekki hafa rætt við Gylfa Þór Sigurðsson eftir að hann var handtekinn á Englandi vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku.

Gylfi hefur ekkert komið við sögu hjá Everton á þessu tímabili og er ekki í landsliðshópnum sem var tilkynntur fyrir stundu.

Á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag var Arnar Þór spurður út í Gylfa og hvort hann hefði rætt við hann síðan hann var handtekinn.

„Gylfi er ekki valinn og ég hef ekki haft samband við Gylfa. Og meira get ég ekki sagt um það mál,“ sagði Arnar Þór.

Hann var ennfremur spurður út í hvernig honum hafi orðið við þegar fréttirnar af handtöku Gylfa bárust.

„Hér í dag erum við að ræða landsliðshóp fyrir næstu þrjá heimaleiki og allt sem kemur að liðinu og hópnum. Það er í raun það eina sem við viljum ræða, hversu spennandi verkefni þetta er fyrir okkur að takast á við, hversu spennandi það er að vera með þessa ungu og reyndari leikmenn saman og hvernig hópurinn er samansettur,“ sagði Arnar Þór.

„Það er alltaf þannig að þjálfarar vilja velja sitt besta lið. Það er alveg ljóst. Alltaf. En við stjórnum ekki alltaf hverja við getum valið.“

Ísland mætir Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi í undankeppni HM í byrjun næsta mánaðar. Íslendingar eru með þrjú stig eftir þrjá leiki í J-riðli undankeppninnar.


Tengdar fréttir

Svona var blaðamannafundur KSÍ

Landsliðsþjálfararnir Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í Laugardal í dag þar sem þeir tilkynntu hópinn fyrir næstu leiki í undankeppni HM karla í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×