Erlent

Rannsaka eitrun í þýskum háskóla

Árni Sæberg skrifar
Eitrunin kom upp í Tækniháskólanum í Darmstadt.
Eitrunin kom upp í Tækniháskólanum í Darmstadt. Andreas Arnold/Getty

Sjö hafa þurft að leita læknisaðstoðar eftir að eitur var skilið eftir í mötuneyti þýsks háskóla í gær. Einn þeirra var fluttur á spítala í lífshættu.

Deutche Welle segir lögregluna í Hessen hafa komið á fót fjörutíu manna rannsóknarnefnd til að komast til botns í málinu. Málið sé rannsakað sem tilraun til manndráps.

Lögreglan í Hessen segir eitri hafa verið komið fyrir í mjólkurfernum og vatnskönnum í mötuneyti einnar bygginga Tækniháskólans í Darmstadt. Eitrinu hafi verið komið fyrir yfir helgina en öll tilvik eitrunar komu upp í gær.

Lögreglan hefur lokað byggingunni sem um ræðir og fjarlægt öll matvæli úr henni. Þá mælir hún með því að allir með tengingu við háskólann sem sýna einkenni eitrunar, sér í lagi blánun útlima, leiti til læknis.

Enginn hefur tilkynnt um eitrun utan þeirra sjö sem gerðu það í gær en þeir eru allir á batavegi. Lögreglan telur enga bráðahættu vera enn þá vegna málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×