Erlent

Talibanar meina Afgönum brottför frá landinu

Árni Sæberg skrifar
Zabihullah Mujahid hefur verið talsmaður Talibana í tæpa tvo áratugi.
Zabihullah Mujahid hefur verið talsmaður Talibana í tæpa tvo áratugi. MARCUS YAM/Getty

Zabihullah Mujahid, talsmaður Talibana, tilkynnti á blaðamannafundi rétt í þessu að afgönskum borgurum verði ekki leyft að fara á flugvöllinn í Kabúl. Hann biðlaði jafnframt til Bandaríkjamanna að hvetja Afgana ekki til að yfirgefa landið.

Mujahid sagði Afgönum sem safnast hafa saman fyrir utan flugvöllinn í Kabúl að snúa aftur heim til sín. Öryggi þeirra yrði tryggt. Þá sagði hann að helstu innviðir í Kabúl væru virkir á ný.

Mujahid telur ekki að Talibanar muni samþykkja veru Bandaríkjahers í landinu lengur en til 31. ágúst líkt og samkomulag bandarískra yfirvalda og Talibana segir til um.

Konum verði ekki bannað að vinna til frambúðar

Talsmaðurinn segir að konum í Afganistan verði ekki varanlega bannað að vinna. Konum í Afganistan hefur að miklu leiti verið bannað vinna frá því að talibanar náðu aftur völdum í landinu. 

Hann segir að konur ættu að halda sig heima eins og er en að þær hafi ekki verið reknar úr störfum sínum og að laun þeirra verði greidd.

„Það er þeim fyrir bestu eins og er til að koma í veg fyrir slæma meðferð,“ segir hann um vinnumál kvenna.

Segir Talibana ekki vera langrækna

Mujahid segir að Talibanar hafi ekki undirbúið neina lista yfir fólk sem á að refsa. „Við erum búnir að gleyma öllu sem gerðist í fortíðinni,“ segir hann.

Breska ríkisútvarpið hefur hins vegar eftir mannréttindastjóra Sameinuðu Þjóðanna að fregnir af fjöldaaftökum Talibana séu áreiðanlegar.

Mannréttindastjórinn segir jafnframt að tilkynningar um alvarleg mannréttindabrot hafi borist SÞ eftir valdatöku Talibana. Þar ber helst að nefna takmarkanir á réttindum kvenna og notkun barnahermanna.

Sendiráðum verði leyft að starfa

Mujahid segir að erlendum sendiráðum hafi verið lofað öryggi og hvetur þau til að halda starfsemi sinni áfram.

Blaðamannafundi Talibana er lokið og fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×