Erlent

Vestrænt herlið í skotbardaga við flugvöllinn í Kabúl

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandarískir landgönguliðar standa vörð við alþjóðaflugvöllinn í Kabúl.
Bandarískir landgönguliðar standa vörð við alþjóðaflugvöllinn í Kabúl. Vísir/EPA

Til skotbardaga kom á milli óþekktra vígamanna annars vegar og vestrænnra og afganskra hersveita hins vegar við flugvöllinn í Kabúl í morgun. Einn afganskur öryggisvörðu er sagður liggja í valnum en þrír aðrir særðust.

Þýski herinn segir að þýskir og bandarískir hermenn hafi tekið þátt í skotbardaganum við norðurhlið flugvallarins. Reuters-fréttastofan hefur eftir tveimur embættismönnum Atlantshafsbandalagsins að öryggissveitir hafi náð stjórn á aðstæðum og að öllum hlið flugvallarins hafi verið lokað.

Bandaríska fréttastöðin CNN heldur því fram að leyniskytta fyrir utan flugvöllinn hafi skotið á afganska verði innan hans og að þeir hafi svarað skothríðinni. Bandarískir hermenn hafi skotið á afgönsku verðina.

Glundroði hefur ríkt á flugvellinum í Kabúl allt frá því að talibanar tóku höfuðborgina og fjölda annarra borga í aðdraganda endanlegs brotthvarfs bandarísks og alþjóðlegs herliðs í þarsíðustu viku.

Þúsundir Afgana og erlendra ríkisborgara hafa í örvæntingu reynt að flýja landið undan stjórn íslömsku öfgamannanna þrátt fyrir að talibanar gefi fögur fyrirheit um að þeir ætli að virða mannréttindi og að konur fái að njóta meiri réttinda en síðast þegar þeir stýrðu landinu frá 1996 til 2001.

Sjö Afganar létust í troðningi við hlið flugvallarins í gær. Liðsmenn talibana skutu þá byssukúlum upp í loftið til þess að reyna að dreifa mannfjöldanum sem hafði safnast saman. Fyrir viku létust einnig nokkrir í ringulreið á flugvellinum, þar á meðal einhverjir sem hröpuðu til bana þegar þeir reyndu að hanga utan á flugvél sem fór í loftið.


Tengdar fréttir

Gripið til aðgerða til að flýta brottflutningi fólks

Joe Biden forseti Bandaríkjanna segir að gripið hafi verið til aðgerða til að flýta flutningi flóttafólks frá Afganistan og hafi bandarískar hersveitir útvíkkað öryggissvæði í kring um flugvöllinn í Kabúl í því augnamiði.

Hleyptu af skotum fyrir utan flugvöllinn

Her­menn Tali­bana beittu valdi og skutu skotum úr rifflum sínum upp í loft til að ná stjórn á að­stæðum við flug­völlinn í Kabúl í dag. Þúsundir Af­gana reyna að komast úr landi í gegn um völlinn til að flýja undan stjórn Tali­bana sem náðu völdum í Afgan­istan í byrjun vikunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×