Enski boltinn

Ödegaard staðfestur og fær áttuna hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Ödegaard var ánægður að vera orðinn leikmaður Arsenal.
Martin Ödegaard var ánægður að vera orðinn leikmaður Arsenal. Getty/Stuart MacFarlane

Arsenal staðfesti það í morgun að félagið hafði keypt Norðmanninn Martin Ödegaard frá Real Madrid.

Ödegaard lék með Arsenal á síðustu leiktíð á láni frá Real en Arsenal kaupir hann nú fyrir um þrjátíu milljónir punda samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins.

Ödegaard fær treyju númer átta hjá Arsenal en hann verður ekki með liðinu á móti Chelsea á sunnudaginn.

Ödegaard kom til Arsenal á miðju síðasta tímabili og var með eitt mark og tvær stoðsendingar í fjórtán leikjum. Arsenal vann fjóra síðustu leikina sem hann spilaði á síðustu leiktíð.

Ödegaard er 22 ára gamall en hefur verið hjá Real Madrid frá árinu 2015 eða í sex ár. Hann hafði verið lánaður til Hollands (Heerenveen og Vitesse) og til annars spænsks liðs (Real Sociedad) áður en hann kom til Arsenal.

Ödegaard spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Norðmenn aðeins fimmtán ára og 253 daga en hann hefur alls spilað þrjátíu A-landsleiki.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.