Erlent

Ritstjóra saknað eftir húsleit í Minsk

Kjartan Kjartansson skrifar
Alexander Lúkasjenka, forseti Hvíta-Rússlands, umber ekki frjáls fjölmiðla eða andóf. Hann hefur verið nefndur síðasti einræðisherra Evrópu en hann hefur verið vil völd í meira en aldarfjórðung.
Alexander Lúkasjenka, forseti Hvíta-Rússlands, umber ekki frjáls fjölmiðla eða andóf. Hann hefur verið nefndur síðasti einræðisherra Evrópu en hann hefur verið vil völd í meira en aldarfjórðung. AP/Andrei Stasevich/BelITA

Ekkert hefur spurst til Irinu Levshynu, ritstjóra helstu sjálfstæðu fréttastofu Hvíta-Rússlands, eftir að lögregla gerði húsleit heima hjá henni í nótt. Samtök blaðamanna í landinu segja að í það minnsta þrjátíu blaðamenn sitji nú í fangelsi.

Starfsmönnum vefmiðilsins BelaPAN hefur hvorki tekist að ná sambandi við Levshynu né Zakhar Sjerbakov, einn fréttamanna sinna. Húsleit var einnig gerð á heimili hans og annars fréttamanns miðilsins, hefur Reuters-fréttastofan eftir blaðamannasamtökunum.

Ríkisstjórn Alexanders Lúkasjenka forseta gengur nú hart fram gegn sjálfstæðum fjölmiðlum, aðgerðasinnum og stjórnarandstæðingum í kjölfar fjöldamótmæla sem áttu sér stað eftir forsetakosningar í fyrra. Vestræn ríki telja að Lúkasjenka hafi haft rangt við þegar hann var endurkjörinn.

Blaðamannasamtökin segja að auk þeirra þrjátíu félaga sem sitja í fangelsi standi nú yfir um fimmtíu sakamálarannsóknir á fjölmiðlafólki í landinu. Húsleit var gerð hjá fjölda blaðamanna, aðgerðasinna og félagasamtaka sem stjórnvöld saka um hafa skipulagt mótmæli í síðasta mánuði.

Stepan Latypov er einn þeirra sem hefur hlotið fangelsisdóm fyrir að skipuleggja mótmæli. Hann hlaut átta og hálfs árs dóm eftir að réttarhöld yfir honum hófust á ný á mánudag. Hlé var gert á þeim eftir að Latypov reyndi að skera sig á háls í réttarsal í júní. Hann hafði áður kvartað undan því að hann sætti pyntingum í fangelsi og fjölskylda hans og nágrannar mættu þola ógnanir yfirvalda.


Tengdar fréttir

Andófsmaður reyndi að stinga sig á háls í dómsal

Karlmaður sem var handtekinn á mótmælum gegn stjórn Alexanders Lúkasjenka í Hvíta-Rússlandi í fyrra reyndi að stinga sig á háls í dómsal í Minsk þegar honum var sagt að fjölskylda hans og nágrannar gætu verið sóttir til sakar ef hann játaði sig ekki sekan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×