Íslenski boltinn

Aron Snær ó­brotinn en fékk heila­hristing

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron Snær Friðriksson fékk heilahristing í leik Fylkis og Víkings.
Aron Snær Friðriksson fékk heilahristing í leik Fylkis og Víkings. Vísir/Vilhelm

Aron Snær Friðriksson, markvörður Fylkis, þurfti að fara af velli í 0-3 tapi Fylkis gegn Víkingum í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu eftir harkalegan árekstur. Aron Snær er óbrotinn en fékk heilahristing og veit ekki hversu lengi hann verður frá.

Aron Snær átti fínan leik í marki Fylkis og var í raun ein helsta ástæða þess að liðið tapaði ekki stærra er Víkingar mættu í Lautina. Þegar tæplega tíu mínútur lifðu leiks hlupu Aron Snær og Erlingur saman með þeim afleiðingum að markvörðurinn fékk þungt höfuðhögg.

Hann lá eftir í jörðinni og var skipt út af í kjölfarið enda ekki fær um að halda leik áfram.

„Ég er í heilu lagi og óbrotinn en fékk heilahristing,“ sagði Aron Snær í stuttu spjalli við Vísi í dag.

„Annars er lítið að frétta í þessu, það verður bara að koma í ljós hvernig hausinn tekur í þetta í dag sem og næstu dögum,“ bætti hann svo við að endingu.

Ólafur Kristófer Helgason, sem stóð vaktina í marki Fylkis í upphafi móts, kom inn fyrir Aron Snæ í gær og gæti fengið tækifærið í næsta leik ef Aron nær ekki að jafna sig á tilsettum tíma.

Fylkir er sem stendur í botnbaráttu Pepsi Max deildarinnar með 16 stig, þremur stigum fyrir ofan HK sem situr í fallsæti, þegar fimm umferðir eru eftir.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×