Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - Víkingur 0-3 | Sannfærandi sigur Víkings á Fylki

Árni Jóhannsson skrifar
Kári Árnason.
Kári Árnason. Vísir/Hafliði Breiðfjörð

Víkingur náði í góðan sigur með frábærri frammistöðu á móti Fylki í 17. umferð Pepsi Max deildar karla fyrr í kvöld. Þegar öllu er á botninn hvolft þá var dagsverkið næsta auðvelt og Víkingur átti sigurinn fyllilega skilið.

Leikurinn var fjörugur á löngum köflum en bæði lið hafa á að skipa mjög röskum leikmönnum sem geta sprengt upp varnir andstæðinganna og var það reynt í gríð og erg í kvöld. Gestirnir áttu fyrsta högg samt sem áður á níundu mínútu en mistök í vörn heimamanna gerðu það að verkum að Nikolaj Hansen fékk boltann í teig Fylkis í góðu færi. Hann renndi boltanum til hliðar á Kristal Mána Ingason sem þakkaði fyrir sig með því að renna boltanum svo í markið. Staðan 1-0 og væntanlega farið um heimamenn í stúkunni.

Fylkismenn náðu að bregðast vel við og áttu þeir mjög flott upphlaup í fyrri hálfleik og voru þeir betra liðið næstu 20 mínúturnar eða svo eftir markið. Því miður fyrir þá þá náðu þeir ekki að skora, þó færin hafi litið dagsins ljós, og leikurinn datt mikið niður seinast korterið. Gengið var til búningsherbergja í stöðunni 1-0 fyrir Víking.

Um það bil 55 sekúndur voru liðnar þegar Víkingur tvöfaldaði forskot sitt. Pablo Punyed fékk boltann á miðsvæðinu með mikinn tíma til að athafna sig. Hann beið eftir því að Kristalla Máni hljóp inn fyrir vörn heimamanna og lyfti boltanum stórglæsilega inn fyrir varnarlínuna. Kristall gerði vel í því að taka við boltanum, koma honum fyrir sig og leggja boltann í net heimamanna framhjá markverðinum.

Við þetta dofnuðu Fylkismenn sem gátu lítið næstu 20 mínúturnar alveg þveröfugt við það sem hafði gerst eftir fyrsta markið. Víkingur hafði fullkomna stjórn á leiknum og með skyndisóknum sköpuðu þeir sér urmul færa. Aron Snær Friðriksson var hinsvegar í fantaformi en hann hélt sínum mönnum vel inn í leiknum þegar færin buldu á heimamönnum.

Á 80. mínútu komst Erlingur Agnarsson inn fyrir vörn heimamanna, enn á ný, og kom Aron út á móti honum og var fyrri í boltann. Erlingur skall á Aroni þannig að hnéið á Erlingi fór í kinnina á Aroni. Við það vankaðist Aron og á endanum þurfti að kalla á sjúkrabíl til að flytja Aron til skoðunar á sjúkrahús. Aron var með meðvitund eftir því sem við fréttum en væntanlega þarf að skoða hann vel því höggið var talsvert.

Áfram hélt leikurinn og fimm mínútum fyrir leikslok þá rak Kwame Quee smiðshöggið á leikinn með því að skora þriðja mark gestanna. Helgi Guðjónsson vann boltann á miðjunni geystist upp, renndi boltanum á Loga Tómasson sem svo renndi boltanum á Kwame sem lagði boltann upp í nærhornið.

Leikurinn fjaraði svo út og Víkingur fagnaði stigunum þremur sem þeir gátu stungið í pokann sinn og eru þakklátir fyrir.

Afhverju vann Víkingur?

Víkingur skapaði sér fullt af færum í dag og nýtti þrjú þeirra. Fylkir skapaði sér einnig færi í dag en nýtti engin. Þar ber í milli. Víkingur náði að deyfa andstæðinga sína með því að skora snemma í seinni hálfleik og sigla skútunni örugglega í höfn.

Hvað gekk illa?

Fylki gekk illa að halda gestunum fyrir framan sig en Víkingur náði margoft að koma sér aftur fyrir varnarlínuna og ógna marki heimamanna. Þá gekk Fylki mjög illa að hitta rammann í dag en þeir fengu þónokkuð mörg færi til þess.

Bestir á vellinum?

Kristall Máni Ingason skoraði tvö mörk í dag og skapaði mikinn usla með hraða sínum og útsjónarsemi. Annars eru margir til kallaðir hér hjá Víkingum sem spiluðu mjög vel í allt kvöld.

Hjá Fylki átti Aron Snær Friðriksson stórleik í markinu þó að hann hafi fengið tvö á sig. Þau hefðu getað verið mikið fleiri.

Hvað næst?

Eins og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, komst að orði í viðtali þá er veisla að hefjast. Úrslitaleikir um alla deild en Víkingur tekur á móti Val í næstu umferð en einungis þrjú stig skilja liðin að þegar þetta er skrifað. Valur efst og Víkingur í öðru sæti.

Fylkir stendur í ströngu á hinum enda töflunnar og fara í Garðabæ og etja kappi við Stjörnuna í leik sem getur haft mikil áhrif á hvort að liðin verði í efstu deild á næsta ári.

Helgi Valur Daníelsson: Við bara verðum að vinna á móti Stjörnunni

Reynslumesti leikmaður Fylkis, Helgi Valur Daníelsson, var að vonum niðurlútur þegar blaðamaður náði á hann eftir tapið gegn Víking. Helgi var spurður að því hvar þetta hafi klikkað hjá Fylkismönnum í dag.

„Fyrstu tvö mörkin voru bara gefins í rauninni. Á meðan við erum bara 1-0 undir þá erum við að spila ágætlega og erum að pressa í opnum leik sem var endanna á milli. Við eigum færi í fyrri hálfleik eins og í seinustu tveimur leikjum en skorum ekki og svo er okkur refsað strax í byrjun seinni hálfleiks og þá verður þetta bara mjög erfitt. Svo erum við galopnir í lokin enda að reyna að ná inn marki og allir komnir fram nánast. Við erum vonsviknir.“

Fylkismenn hafa fengið á sig mark strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks núna tvo leiki í röð, í kvöld og á móti Haukum í bikarnum, og var Helgi spurður út í það hvort hann ætti skýringu á þessari staðreynd.

„Ég veit ekki hvað er að gerast. Ég myndi ekki nú líta á bikarleikinn með í þessu. Síðustu tveir deildarleikir hafa verið mjög góðir spilalega séð. Við erum að skapa fullt af færum en skorum ekki. Þetta var náttúrlega skellur að tapa þessum leik svona. Aðalatriðið er að fara að skora úr færunum og verjast í framhaldi af því. Þetta eru of auðveld mörk sem við fáum á okkur í dag.“

Liðin í kringum Fylki töpuðu í dag og var Helgi spurður hvort Fylkir væri meira að horfa niður fyrir sig en upp á þessum tímapunkti og hvað yrði rætt á milli leikja.

„Já auðvitað. Þetta er mjög stutt á milli og allir eru að tapa núna. Við verðum að fara að vinna því þessi jafntefli telja mjög lítið núna. Næsti leikur er botnbaráttu leikur við Stjörnuna sem við verðum að mæta gíraðir í.“

„Ég veit ekki hvað við ræðum um. Við förum yfir það hvernig Stjarnan spilar og hvað hefur gengið vel hjá okkur og hvað ekki. Mér finnst við samt heilt yfir hafa spilað ágætlega í fyrri hálfleik þannig að það er eitthvað sem hægt er að taka jákvætt úr þessu en við bara verðum að vinna á móti Stjörnunni.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira