Íslenski boltinn

Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands þegar Víkingar unnu síðast í Árbænum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingar hafa aldrei verið í betri stöðu til að vinna loksins í Árbænum en í kvöld enda fjórtán stigum og sjö sætum á undan Fylki í töflunni.
Víkingar hafa aldrei verið í betri stöðu til að vinna loksins í Árbænum en í kvöld enda fjórtán stigum og sjö sætum á undan Fylki í töflunni. Vísir/Hulda Margrét

Víkingar mæta í Árbæinn í kvöld og mæta þar Fylki í sautjándu umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu. Þar unnu Víkingar síðast í efstu deild seint á síðustu öld.

Síðasti sigur Víkinga á Fylki í Árbæ í efstu deild kom í hús 11. september 1993 eða fyrir tæpum 28 árum síðan. Þá átti Vigdís Finnbogadóttir enn eftir þrjú ár sem forseti Íslands.

Víkingar unnu þar 2-1 sigur þar sem Tomasz Jaworek og Marteinn Már Guðgeirsson skoruðu mörk Víkinga í seinni hálfleik eftir að Björn Einarsson, þáverandi leikmaður Fylkis og núverandi formaður Víkings, hafði komið Fylki yfir í fyrri hálfleiknum.

Víkingar höfðu einnig unnið fyrsta leik liðanna í Árbænum fjórum árum fyrr en hafa ekki unnið á Fylkisvellinum frá því haustið 1993.

Frá þessum leik hafa liðin spilað níu sinnum í Árbænum í úrvalsdeild karla og Fylkir hefur unnið átta af þessum leikjum þar af síðustu fjóra. Eina stig Víkinga kom í jafnteflisleik sumarið 2014.

Víkingar hafa reyndar unnið útileik á móti Fylki á þessum tíma en sá leikur var ekki spilaður í Árbænum heldur í Egilshöllinni. Víkingar fögnuðu þá 3-2 sigri 9. júlí 2018.

Leikur Fylkis og Víkings hefst klukkan 19.15 í kvöld og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun á Stöð 2 Sport fyrir leiki kvöldsins byrjar klukkan 18.30 og Pepsi Max Stúkan er síðan strax á eftir þar sem allir leikir kvöldsins verða gerðir upp en leikur HK og KR sem og leikur Breiðabliks og ÍA eru sýndir beint á stod2.is.

 • Leikir Fylkis og Víkinga í efstu deild karla í Árbænum:
 • 24. september 2020: Fylkir vann 2-1
 • 18. september 2019: Fylkir vann 3-1
 • 28. júní 2016: Fylkir vann 1-0
 • 26. júní 2015: Fylkir vann 1-0
 • 10. ágúst 2014: 1-1 jafntefli
 • 11. september 2011: Fylkir vann 2-1
 • 9. ágúst 2007: Fylkir vann 1-0
 • 10. júlí 2006: Fylkir vann 1-0
 • 15. júní 2004: Fylkir vann 2-1
 • 11. september 1993: Víkingur vann 2-1
 • 16. ágúst 1989: Víkingur vann 2-1

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.