Afgönsk stjórnvöld höfðu lofað að verja borgina með kjafti og klóm. Tveir fyrrverandi stríðsherrar höfðu ljáð stjórnvöldum lið í baráttu þeirra við Talíbanana. Annar þeirra segir að stjórnarherinn hafi gefist upp fyrstur þegar Talíbanar gerðu stórsókn á borgina.
Talíbanar fara nú með öll völd í 24 af 34 héraðshöfuðborgum Afganistan. Stjórnin heldur enn Kabúl og nokkrum héruðum í mið- og austurhluta landsins.
Rýming Kabúl er hafin
Flest erlend stjórnvöld reyna nú eftir fremsta megni að koma ríkisborgurum sínum, sem búa í Afganista, frá landinu.
Árni Arnþórsson, aðstoðarrektor American University of Afghanistan, sagði til að mynda í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 að verið væri að forða öllum erlendum starfsmönnum skólans frá Kabúl. Sjálfur sé hann á Spáni og hyggist ekki snúa aftur til Afganistan meðan Talíbanar ráða ríkjum.
Þá hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti sent fimm þúsund manna herlið til Kabúl til að aðstoða bandaríska starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna í Kabúl við að forða sér. The Guardian greinir frá þessu.
Mikil ótti ríkir í Afganistan og hafa margir almennir borgarar reynt að flýja landið. Stjórnvöld í Kanada tilkynntu í gær að þau myndu taka við tuttugu þúsund afgönskum flóttamönnum.