Umfjöllun og viðtöl: ÍA - FH 1-0 | Skagamenn hentu tíu FH-ingum úr keppni

Sverrir Mar Smárason skrifar
Skagamenn unnu FH-inga í kvöld og eru komnir í 8-liða úrslit.
Skagamenn unnu FH-inga í kvöld og eru komnir í 8-liða úrslit. Vísir/HAG

ÍA vann 1-0 sigur á FH er liðin mættust á Norðurálsvellinum á Akranesi í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta í kvöld. FH hefur ekki fallið svo snemma úr keppni í bikarnum í sjö ár.

Skagamenn fengu FH í heimsókn á Akranes í kvöld í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla. Leikurinn fer seint í sögubækurnar fyrir fallegan fótbolta en það var hart tekist á í leiknum og þar höfðu Skagamenn yfirhöndina.

Leikurinn fór vel af stað fyrir heimaliðið sem setti háa og mikla pressu á gestina úr Hafnafirði strax frá upphafi. Eftir þá pressu uppskáru þeir fyrsta mark leiksins eftir einungis sex mínútna leik. Sindri Snær vann boltann af Steven Lennon á miðjunni, var fljótur að sjá gott hlaup inn fyrir frá Ísaki Snæ og sendi boltann á hann. Ísak gerði sér lítið fyrir, hristi af sér varnarmann og lagði boltann framhjá Gunnari Nielsen í marki FH. Ísak þar með að skora annan leik sinn í röð úr keimlíkum færum.

Boltinn var að mestu stopp það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og textalýsandi Vísis hélt varla í við allar auka- og hornspyrnurnar sem liðin skiptust á að fá. Fyrir utan tvö skot úr aukaspyrnu frá Steven Lennon var lítið um færi og marktilraunir. Hálfleikstölur 1-0 fyrir ÍA.

Síðari hálfleikur hófst með látum. Fyrst náði Guðmann Þórisson að stöðva sendingu frá Ísaki Snæ sem hefði komið Steinari Þorsteinssyni einum gegn markmanni og aðeins 30 sekúndum síðar var Steven Lennon í dauðafæri hinum megin á vellinum. Jónatan Ingi fékk þá boltann hægra megin við vítateig Skagamanna, lék á varnarmann og lagði boltann út á vítapunkt þar sem Steven Lennon var aleinn. Lennon reyndi fast skot meðfram jörðu en Árni Marinó, markmaður ÍA, var vel á verði og varði frá honum.

Liðin reyndu bæði að skapa sér færi en ekkert gekk. Þá fengu nokkrir að líta gult spjald fyrir að stöðva skyndisóknir beggja megin en það var svo á 63.mínútu sem draga tók til tíðinda. FH áttu aukaspyrnu í góðu skotfæri og í þann mund sem Guðmundur Kristjánsson var að fara að skjóta á markið stöðvaði Sigurður Hjörtur, dómari leiksins, leikinn. Hann gekk að Jónatan Inga sem stóð yfir Hlyni Sævari og gaf honum rautt spjald. Í endursýningu kom í ljós að Jónatan Ingi hafi slegið til Hlyns Sævars og Hlynur fallið í grasið. Pétur Viðarsson reyndi að mótmæla þessu en fékk að líta gult spjald fyrir. FH-ingar því einum leikmanni færri síðasta hálftíma leiksins.

Það sá ekki á að FH væru manni færri því þeir gerðu sókndjarfar skiptingar, fækkuðu í vörninni og settu mikinn þunga á vörn ÍA. Eggert Gunnþór reyndi fjórum sinnum að jafna leikinn, í þrígang varði Árni Marinó og í eitt skiptið hoppaði Steinar Þorsteinsson fyrir. Morten Beck reyndi einnig en Árni Marinó varði bæði hans skot, allt saman á síðustu fimmtán mínútum leiksins. Árni Marinó reyndist þarna Skagamönnum betri en enginn og Skagamenn komnir áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

Af hverju vann ÍA?

Þeir mættu mjög grimmir og tilbúnir til leiks í kvöld. Settu mikla pressu á FH og höfðu greinilega unnið sína heimavinnu fyrir þennan leik varðandi það hvernig átti að vinna FH. Líkt og fyrr segir snérist leikurinn ekki um fallegan fótbolta heldur mikla baráttu og Skagamenn unnu þá baráttu í kvöld og þar með leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Fyrstu 80 mínúturnar voru það miðjupar Skagamanna sem voru bestir í leiknum, Ísak Snær og Sindri Snær. Þeir gerðu markið, unnu boltann margoft og stöðvuðu sóknir FH til skiptis. Síðustu 10 mínúturnar steig svo ungi markmaðurinn, Árni Marinó, upp og sigraði leikinn fyrir ÍA með markvörslum sínum. Þeir þrír deila því þessum lið.

Hvað mátti betur fara?

FH voru í vandræðum með að halda boltanum og spila sig í gegnum lið ÍA í kvöld. Fyrst og fremst vegna góðrar pressu ÍA en FH-ingar urðu ráðalausir og ekkert gekk hjá þeim að spila boltanum. Í lok leiks fengu þeir mörg góð færi eftir langa bolta fram völlinn en illa gekk að nýta þau.

Hvað gerist næst?

FH-ingar keyra súrir heim í Hafnarfjörð en Skagamenn verða í pottinum góða annað kvöld þegar dregið verður í 8-liða úrslit í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport eftir leik Víkings R. og KR.

Ólafur: Við vorum arfaslakir í fyrri hálfleik

Ólafur var ekki ánægður með sína menn.Vísir/Bára Dröfn

Þjálfari FH, Ólafur Jóhannesson, var súr eftir tap síns liðs í kvöld.

„Tilfinningin er frekar fúl. Við vorum arfaslakir í fyrri hálfleik og nánast áhorfendur af leiknum en svona lifnaði aðeins yfir okkur í seinni en það dugði ekki til. Það var bara ekki kveikt á okkur í fyrri hálfleik og við gerðum nánast ekkert þá,“ sagði Ólafur.

Ólafur trúir því ekki uppá Jónatan Inga að hafa slegið til Hlyns Sævars.

„Ég sá það ekki ég ætla rétt að vona að þið hafið séð það með ykkar vélum (spyrill tilkynnti þá Ólafi um líklegt brot Jónatans). Ég trúi því ekki, hann hefur aldrei gert flugu mein þessi drengur og hann fer ekki að byrja á því hérna,“ sagði Ólafur fullviss.

Ólafur segir liðið ekki vera dottið úr deildinni.

„Við erum ennþá með í henni, við erum ekki dottnir úr henni þannig við erum í góðu lagi,“ sagði Ólafur að lokum og glotti.

Sindri Snær: Árni sá til þess að við erum komnir áfram

Sindri Snær Magnússon, miðjumaður ÍA, var virkilega sáttur með sig og liðsfélaga sína í leikslok.

„Heldur betur gott að vinna og helvíti gaman að fara áfram í bikar. Það er ógeðslega gaman og gefur okkur aðeins extra eftir að hafa verið að ströggla í deildinni. En við ætlum að snúa því við og það skiptir máli að bæta sjálfstraustið sama hvernig það er gert,“ sagði Sindri Snær og bætti við „mér fannst við flottir 11 á 11, ekki jafn flottir 11 á 10 en klárlega tökum við allt með okkur, sigra, sjálfstraust og allt sem fylgir því.“

Sindri Snær stýrði að mörgu leyti pressu Skagaliðsins í fyrri hálfleik sem hálfgert akkeri á miðjunni. Þar unnu bæði hann og félagar hans í liðinu marga bolta af FH.

„Við settum smá pressu á þá í byrjun og skorum hérna strax snemma leiks og fórum aðeins fyrir aftan þá eins og við vildum gera. Gátum fært þá aðeins aftar á völlinn og uppskárum eftir því. Svo náðum við að halda búrinu okkar hreinu í seinni,“ sagði Sindri Snær.

Sindri tók undir með þjálfara sínum, Jóhannesi Karli, og hrósaði unga markmanni Skagamanna, Árna Marinó.

„Hann var gjörsamlega geggjaður. Þeir settu þrjá eða fjóra turna upp, ég veit ekki hvað þeir voru komnir margir þarna og við náðum bara aldrei fyrsta né öðrum boltanum. Þeir fengu fjögur dauðafæri þarna og Árni sá til þess að við erum komnir áfram,“ sagði Sindri Snær að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira