Fótbolti

Hefði ekki mátt spila launa­laust með Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lionel Messi hefði ekki getað verið áfram í herbúðum Barcelona þó svo að hann hefði spilað launalaust.
Lionel Messi hefði ekki getað verið áfram í herbúðum Barcelona þó svo að hann hefði spilað launalaust. Manuel Queimadelos/Getty Images

Lionel Messi hefur yfirgefið spænska stórveldið Barcelona og mun að öllum líkindum semja við franska knattspyrnufélagið París-Saint Germain síðar í dag. Vegna regluverks La Liga, spænsku úrvalsdeildarinnar, gátu Börsungar ekki samið við Argentínumanninn á nýjan leik þar sem hann hefði ekki mátt spila launalaust með félaginu.

Undanfarnir dagar hafa verið lyginni líkastir en eftir að hafa viljað yfirgefa félagið fyrir ári þá hafði Messi skipt um skoðun og vildi vera áfram í herbúðum Börsunga. Samningurinn var tilbúinn og átti aðeins eftir að setja blek á blað til að staðfesta áframhaldandi veru argentíska snillingsins í Katalóníu.

Allt kom fyrir ekki.

Ástæðan er sú að regluverk La Liga bíður einfaldlega ekki upp á að Messi taki á sig nægilega stóra launalækkun til að félagið geti haldið honum. 

Joan Laporta, forseti félagsins, ræddi málið á blaðamannafundinum er tilkynnt var að Messi yrði ekki áfram eins og Vísir greindi frá.

„Tölurnar eru mun verri en við var búist. Við höfum ekkert svigrúm þegar kemur að launum. Reglurnar um fjárhagslega háttvísi (FFP) setja okkur líka skorður. Ég gat ekki tekið ákvörðun sem myndi tortíma félaginu. Barcelona er það mikilvægasta.“

 Hann sagði að Messi hefði viljað vera áfram hjá Barcelona og félagið hafi að sjálfsögðu viljað halda honum en það hafi verið ómögulegt. Samkvæmt Laporta var launakostnaður Barcelona 110 prósent af innkomu félagsins fyrir brotthvarf Messi en sé í dag 95 prósent.

„Við erum á þolmörkunum, jafnvel án hans, og þurfum að endurskipuleggja okkur. Ég er sorgmæddur en sannfærður um að við höfum gert það besta fyrir Barcelona,“ 

sagði Laporta einnig um brotthvarf eins albesta knattspyrnumanns sögunnar.

Þó Barcelona hafi unnið Juventus 3-0 í vináttuleik í gærkvöld eru enn margar spurningar sem á eftir að svara fyrir komandi tímabil. Félagið hefur til að mynda ekki enn náð að skrá nýja leikmenn í hóp sinn fyrir komandi tímabil þar sem regluverk La Liga hindrar það vegna skuldastöðu félagsins.

Það verður því að koma í ljós hvort Eric Garcia, Memphis Depay og Sergio Agüero verði í leikmannahóp Barcelona er liðið fær Real Sociedad í heimsókn þann 15. ágúst í fyrstu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar.


Tengdar fréttir

„Barça verður aldrei samt án þín“

Spánverjinn Cesc Fabregas, sem leikur með Mónakó í Frakklandi, sendi Lionel Messi hjartnæma kveðju á samfélagsmiðlinum Twitter. Fabregas er jafnaldri Messi og æfði með honum sem unglingur áður en þeir spiluðu saman fyrir aðallið Barcelona síðar.

Messi kveður Barcelona með tárum

Lionel Messi hefur leikið sinn síðasta leik fyrir katalónska fótboltaliðið Barcelona. Hann er á blaðamannafundi í beinni frá Nývangi.

Messi á förum frá Barcelona

Þau risastóru tíðindi voru að berast að Lionel Messi mun ekki skrifa undir nýjan samning við spænska félagið Barcelona. Messi varð samningslaus þann 30. júní síðastliðinn, og nú fyrr í dag sigldu samningaviðræður hans við Barcelona í strand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×