Fótbolti

Messi eyðilagður og í áfalli yfir því að þurfa að fara frá Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi er leikja- og markahæsti leikmaður í sögu Barcelona.
Lionel Messi er leikja- og markahæsti leikmaður í sögu Barcelona. getty/Alex Caparros

Lionel Messi er í áfalli og niðurbrotinn eftir að hann gat ekki endurnýjað samning sinn við Barcelona.

Í gær sendi Barcelona frá sér yfirlýsingu þess efnis að Messi væri farinn frá félaginu því það hafi ekki getað framlengt samning hans vegna fjárhags- og kerfislegra hindrana.

Messi var búinn að ná samkomulagi við Barcelona um nýjan samning. Hann samþykkti að taka á sig fimmtíu prósent launalækkun en fékk þess í stað fimm ára samning. Nú er hann hins vegar úr sögunni og Messi þarf að finna sér nýtt félag.

Samkvæmt spænska dagblaðinu Sport komu þessar vendingar Messi mjög á óvart og hann er eyðilagður yfir því að þurfa að yfirgefa Barcelona, félagið sem hann hefur leikið með allan sinn feril.

Messi vildi fara frá Barcelona síðasta sumar en ekkert varð af því. Hann lék vel með Barcelona í vetur og var markahæstur í spænsku úrvalsdeildinni og hjálpaði Börsungum að vinna spænska konungsbikarinn.

Paris Saint-Germain hefur þegar sett sig í samband við Messi. Hann hefur einnig verið orðaður við Englandsmeistara Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×