Fótbolti

Grátur og gnístran tanna fyrir utan Nývang eftir brotthvarf Messis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þessi stuðningsmaður Barcelona sendi skýr skilaboð.
Þessi stuðningsmaður Barcelona sendi skýr skilaboð. epa/ALEJANDRO GARCIA

Stuðningsmenn Barcelona eru í áfalli eftir að greint var frá því að Lionel Messi hefði yfirgefið félagið sem hann hefur leikið með allan sinn feril.

Í gær sendi Barcelona frá sér tilkynningu þess efnis að Messi væri farinn frá félaginu vegna fjárhags- og kerfilegra hindrana.

Eftir að fréttirnar bárust söfnuðust stuðningsmenn Barcelona saman fyrir utan Nývang, heimavöll liðsins.

Myndband af einum þeirra fór á flug á samfélagsmiðlum en þar sést hann krjúpa við hliðið fyrir utan Nývang, halda dauðahaldi í Barcelona-treyju með nafni Messis aftan á og hágráta.

Hundruðir annarra stuðningsmanna Barcelona komu saman til að syrgja brotthvarf besta leikmanns í sögu félagsins. Messi er bæði leikja- og markahæstur í sögu Barcelona og var fyrirliði liðsins.

Barcelona mætir Real Sociedad í 1. umferð spænsku úrvalsdeildarinnar sunnudaginn 15. ágúst. Börsungar enduðu í 3. sæti deildarinnar á síðasta tímabili en urðu bikarmeistarar.


Tengdar fréttir

Messi á förum frá Barcelona

Þau risastóru tíðindi voru að berast að Lionel Messi mun ekki skrifa undir nýjan samning við spænska félagið Barcelona. Messi varð samningslaus þann 30. júní síðastliðinn, og nú fyrr í dag sigldu samningaviðræður hans við Barcelona í strand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×