Fótbolti

Kane sárnar umfjöllunin: Hef aldrei neitað að æfa

Valur Páll Eiríksson skrifar
Harry Kane mætir til liðs við félaga sína hjá Tottenham á morgun.
Harry Kane mætir til liðs við félaga sína hjá Tottenham á morgun. Shaun Botterill/Getty Images

Harry Kane, framherji og fyrirliði Tottenham Hotspur á Englandi, sendi frá sér tilkynningu á Twitter-síðu sinni í dag þar sem hann segist mæta til æfinga hjá félaginu á morgun. Honum sárni spurningar um fagmannleika sinn.

Á mánudag greindu breskir fjölmiðlar frá því að Kane hefði ekki mætt til æfinga, líkt og til hafði staðið, hjá félagi sínu. Háværir orðrómar hafa verið á kreiki um möguleg félagsskipti hans til Englandsmeistara Manchester City og sagt var að Kane hafi neitað að mæta til æfinga til að setja pressu á sölu frá félaginu.

Kane sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hann segir það þvætting. Honum sárni ummæli margra stuðningsmanna félagsins og segist aldrei hafa neitað að æfa.

„Það er sárt að lesa sum ummæli sem hefur verið kastað fram í vikunni, þar sem efast er um mína fagmennsku,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

„Ég mun ekki fara út í smáatriði þegar kemur að stöðu minni, en vil árétta að ég myndi aldrei, og hef aldrei, neitað að æfa. Ég mun snúa aftur til félagsins á morgun,“

Tottenham mun leika sinn síðasta æfingaleik fyrir komandi leiktíð gegn Arsenal á sunnudag. Fyrsti deildarleikur liðsins í ensku úrvalsdeildinni er gegn Manchester City, sem hafa elst við Kane í sumar, næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×