Enski boltinn

„Verkfall“ Harry Kane endist ekki út vikuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane er enn titlalaus á ferlinum en hér er hann eftir tapið í úrslitaleik EM í sumar.
Harry Kane er enn titlalaus á ferlinum en hér er hann eftir tapið í úrslitaleik EM í sumar. EPA-EFE/Laurence Griffiths

Annan daginn í röð mætti Harry Kane ekki á æfingu hjá Tottenham nú þegar ein og hálf vika er í fyrsta leik á keppnistímabilinu.

Hinn 28 ára gamli Kane átti að mæta aftur til æfinga á mánudaginn eftir sumarfrí en hann hafði þá fengið aukafrí eftir að hafa farið með enska landsliðinu alla leið í úrslitaleikinn á EM í sumar.

Kane vill komast frá Lundúnafélaginu og skrópaði á æfingu bæði í dag og í gær. Manchester City er mjög áhugasamt um að kaupa enska landsliðsframherjann en ekkert hefur gerst ennþá.

Kane telur samkvæmt frétt ESPN að hann hafi gert heiðursmannasamkomulag við Tottenham að vera seldur í sumar. Það er ósætti við að ekkert sé að gerast í þeim málum sem útskýrir skrópið.

Tottenham vill fá 150 milljónir punda fyrir sinn besta leikmann en það er óvíst hvort að City, eða Manchester United and Chelsea sem fylgjast með gangi mála, geti borgað svo mikið fyrir hann.

ESPN hefur engu að síður heimildir fyrir því að „verkfall“ Harry Kane endist ekki út vikuna og að hann muni mæta á æfingu á fimmtudag eða föstudag.

Kane á þrjú ár eftir af samningi sínum við Tottenham en félagið er að borga honum tvö hundruð þúsund pund í vikulaun eða 34,5 milljónir íslenskra króna. Hann er ekki að elta peninginn heldur vill komast til félags sem getur unnið titla.

Kane hefur skorað 166 mörk í 245 leikjum með Tottenham í ensku úrvalsdeildinni en hefur ekki náð að vinna einn einasta titil á tíma sínum hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×