Erlent

Þrír starfsmenn CNN reknir fyrir að mæta óbólusettir til vinnu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Grímuskylda er á starfstöðvum fyrirtækisins í Atlanta, Los Angeles og Washington.
Grímuskylda er á starfstöðvum fyrirtækisins í Atlanta, Los Angeles og Washington. epa

Þremur starfsmönnum CNN hefur verið sagt upp eftir að hafa mætt óbólusettir í vinnuna. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir ekkert umburðarlyndi verða viðhaft hvað varðar endurkomu starfsmanna til starfa án bólusetningar.

Í minnisblaði sem Jeff Zucker sendi starfsmönnum um uppsagnirnar sagði hann bólusetningu forsendu þess að starfsfólk snéri aftur á vinnustaðinn eftir að hafa starfað heima vegna sóttvarnaráðstafana. 

Sama sagði hann gilda um það þegar starfsmenn mættu á vettvang og umgengjust aðra starfsmenn. Tók hann skýrt fram að engar undantekningar yrðu gerðar á reglunni.

Sem stendur er flestum starfsmönnum CNN í sjálfsvald sett hvort þeir vinna heima eða á skrifstofunni. Í minnisblaðinu segir að um þriðjugur hafi þegar snúið aftur til vinnu.

Enn sem komið er hafa starfsmenn ekki verið beðnir um að framvísa bólusetningarvottorðum en Zucker segir það kunna að koma til með að breytast. Þá sé grímuskylda í gildi á starfstöðvum fyrirtækisins í Atlanta, Los Angeles og Washington.

Að sögn Zucker er starfsmönnum annars staðar frjálst að bera grímu og ættu að geta gert það án ótta við fordæmingu samstarfsmanna.

Til stóð að skikka starfsmenn til að mæta aftur á skrifstofuna frá og með 7. september en því hefur verið frestað fram í október. Önnur fjölmiðlafyrirtæki, til dæmis Associated Press, hafa sömuleiðis ákveðið að fresta endurkomu starfsmanna.

Facebook, Google og Uber eru meðal annarra fyrirtækja sem hafa skyldað starfsmenn til að gangast undir bólusetningu áður en þeir mæta aftur til vinnu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.