Innlent

Binda vonir við nýtt bóluefni gegn delta-afbrigðinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pfizer þróar nú bóluefni gegn delta-afbrigðinu, sem hefur farið um heiminn sem eldur í sinu.
Pfizer þróar nú bóluefni gegn delta-afbrigðinu, sem hefur farið um heiminn sem eldur í sinu. EPA/Christophe Ena

Heilbrigðisyfirvöld binda vonir við nýtt bóluefni gegn delta-afbrigði kórónuveirunnar en Pfizer er nú þegar með slíkt í þróun. Það gæti orðið til þess að raunverulegt hjarðónæmi myndaðist gen SARS-CoV-2.

Þetta kom fram í máli Kamillu Sigríðar Jósefsdóttur, staðgengils sóttvarnalæknis, á upplýsingafundinum í morgun. Var hún þar að svara þeirri spurningu hvort eina leiðin til að mynda ónæmi væri að leyfa kórónuveirufaraldrinum að fara óheft um samfélagið.

Kamilla sagði nýtt bóluefni svarið þar sem delta-afbrigðið væri nú ráðandi svo til alls staðar. Hún sagði það hins vegar háð því að annað afbrigði kæmi ekki fram sem væri ónæmt fyrir bóluefnum í notkun.

Hvers vegna voru börnin ekki bólusett fyrr?

Á fundinum fékk Kamilla einnig þá spurningu hvers vegna það hefði tekið svo langan tíma að hefja undirbúning bólusetninga barna á aldrinum 12 til 15 ára þrátt fyrir að Lyfjastofnun Evrópu hefði samþykkt notkun bóluefnisins frá Pfizer fyrir þennan aldurshóp fyrir tveimur mánuðum.

Að sögn Kamillu var á þeim tíma verið að rannsaka tengsl bólusetninga við tilvik gollurhúss- og hjartavöðvabólga, sem virtust algengari hjá yngri aldurshópum. Í ljós hefði komið að veikindin væru oftast væg, þótt þau væru ógnvekjandi, og einstaklingar næðu sér nær alltaf með hvíld og inntöku bólgueyðandi lyfja á borð við íbúfen.

Þá hefði heimild stofnunarinnar á notkun Pfizer meðal ungmenna einnig komið til á sama tíma og faraldurinn var í lágmarki hérlendis og skólar á leið í sumarfrí.

Nú væri staðan hins vegar breyst og því væri verið að undirbúa bólusetningu 12 til 15 ára, á sama tíma og verið væri að gefa kennurum og skólastarfsmönnum örvunarskammt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×